Hamilton flaut minnst

Lewis Hamilton á Mercedes varð hlutskarpastur í annars sviptingasamri tímatöku ungverska kappakstursins sem var að ljúka í Búdapest.

Samhliða á fremstu rásröð verður liðsfélagi hans Valtteri Bottas en í allra síðustu tímatilraun skákuðu þeir Ferrarimönnunum Kimi Räikkönen og Sebastian  Vettel niður á næstu rásröð, niður í þriðja og fjórða sæti.

Vegna úrhellisrigningar var Hungaroring hringurinn rennvotur og aðstæður válegar. Megin spurningin hver skautaði minnst í beygjum, að þeim og út úr þeim. Þegar upp var staðið reyndist rásfesta Mercedesbílanna best en þeir skiptu yfir á ný regndekk fyrir lokatilraun sína, nokkuð sem Vettel lét ógert og galt fyrir. 

Ráspóllinn var sá fimmti sem Hamilton vinnur á árinu og sjá sjötti sem hann klárar bestur allra í Hungaroring.

Það segir sitt um hinar erfiðu aðstæður, að á meðal allra fremstu voru ökumenn sem sjaldnast sjást í hópi tíu fremstu á rásmarki. Þannig varð Carlos Sainz á Renault fimmti og Pierre Gasly á Toro Rosso sjötti.

Max Verstappen á Red Bull varð sjöundi, Brendon Hartley á Toro Rosso áttundi og í níunda og tíunda sæti urðu Haas-félagarnir Kevin Magnussen og Romain Grosjean. 

Í sætum ellefu til fimmtán urðu Fernando Alonso á McLaren, Daniel Ricciardo á Red Bull, Nico Hülkenberg á Renault, Max Ericsson á Sauber og Lance Stroll á Williams.

mbl.is