Setti brautarmet á Ferraribíl

Ferraribíllinn var fljótur í förum á fyrsta degi reynsluakstursins í ...
Ferraribíllinn var fljótur í förum á fyrsta degi reynsluakstursins í Hungaroring við Búdapest. AFP

Antonio Giovinazzi reynsluökumaður Ferrari, setti nýtt en óopinbert hraðamet í Hungaroring, á fyrsta degi reynsluaksturs formúluliðanna þar. Ók hann hringinn best á 1:15,648 mínútum á ofurmjúkum dekkjum.

Til samanburðar var hraðasti hringur kappakstursins í sömu braut í fyrradag rétt rúmlega 1:20 mínútur.

Hið opinbera met í brautinni á Sebastian Vettel, einnig á Ferraribíl, frá því á annarri tveggja æfinga fyrir ungverska kappaksturinn sl.föstudag. Hljóðar það upp á 1:16,170 mín. 

Rigningarskúrir síðdegis komu í veg fyrir að aðrir ökumenn gætu gert atlögur að tíma Giovinazzi en næstur honum varð Marcus Ericsson á Sauber, sem ók best á 1:18,155 eða 2,5 sekúndum frá tíma Ítalans.

Sean Gelael sinnti dekkjaprófunum fyrir Pirelli á bíl frá Toro Rosso.Hlekktist honum á með þeim afleiðingum að hann flaug út úr elleftu  beygju hringsins og hafnaði á öryggisvegg. Slapp hann ómeiddur frá skellnum harða.

Niðurstaða reynsluakstursins í Búdapest í dag var annars sem hér segir:

1) Antonio Giovinazzi, Ferrari – 1:15,648 - 96 hringir
2) Marcus Ericsson, Sauber – 1:18,155 - 95 hringir
3) Brendon Hartley, Toro Rosso – 1:19,251 - 126 hringir
4) Lando Norris, McLaren – 1:19,294 -  107 hringir
5) George Russell, Mercedes – 1:19,781 - 49 hringir
6) Daniel Ricciardo, Red Bull – 1:19,854 - 125 hringir
7) Nicholas Latifi, Force India – 1:19,994 - 103 hringir
8) Nico Hülkenberg, Renault – 1:20,826 - 63 hringir
9) Oliver Rowland, Williams – 1:20,970 - 65 hringir
10) Sean Gelael, Pirellitest (Toro Rosso) – 1:21,451 - 109 hringir

mbl.is