Alonso hafnaði Red Bull

Fernando Alonso segir í viðtali við bresku sjónvarpsstöðina Sky, að hann hafi hafnað boði um að keppa fyrir Red Bull liðið á næsta ári.

Alonso segir að vel hafi komið til greina að halda áfram keppni í formúlu-1 hefði honum staðið samkeppnisfær bíll til boða. Megin ástæðuna fyrir því að hann hverfur á braut segir Alonso vera fyrirsjáanleika keppninnar.

Sæi losnaði hjá Red Bull í byrjun ágúst er Daniel Ricciardo ákvað að ganga til liðs við Renault.

Liðsstjóri Red Bull sagði fyrir nokkrum vikum að það yrði ekki það ákjósanlegasta fyrir liðið að ráða Alonso sem ökumann. „Ég ber gríðarlega virðingu fyrir Fernando, hann er frábær ökumaður, en vandinn er að hann hefur átt til að valda glundroða alls staðar, öllum  liðum sem hann hefur keppt fyrir. Ég er efins um að það verði til góðs fyrir liðið að fá Fernando til sín. Forgangsatriði hjá okkur er að fjárfesta í ungum ökumönnum frekar en að ráða keppanda sem er á lokaspretti ferilsins,“ sagði Horner.

Þetta hljómar undarlega í ljósi þess að sömu daga var hann að bera í víurnar við Alonso, sem sagði nei takk við sæti hjá liði Horner.

mbl.is