Bottas og Hülkenberg taka út víti

Valtteri Bottas og Nico Hülkenberg þurfa báðir að hefja keppni í belgíska kappakstrinum á sunnudag aftarlega á rásmarkinu.

Að sögn akstursíþróttaritsins Auto Motor und Sport, hafa báðir fullnýtt vélarkvóta sinn fyrir vertíðina. Þar sem þeir þurfa ýmsa nýja íhluti í aflrásina leiðir það sjálfkrafa til akstursvíta. 

Bottas fær nýja vél, þá fjórðu á árinu, nýja forþjöppu, nýjan MGU-H orkunýtingarbúnað. Fer hann út fyrir kvótann í öllum þessum íhlutum nýju.

Hülkenberg mun svo fá alveg nýja vél í Spa, að sögn tímaritsins.

mbl.is