Skipt um stjóra hjá Force India

Robert Fernley mætti ekki til leiks í Spa í dag en hann hefur verið leystur frá störfum sem liðsstjóri Force India. Óvíst er hvort liðið geti keppt í Belgíu um helgina.

Samsteypa undir forystu kanadíska auðkýfingsins Lawrence Stroll hefur tekið Force India yfir og sagðist ekki lengur þurfa á kröfum Fernley að halda en hann hafði stýrt Force India frá stofnun þess 2008 ásamt eigandanum Vijay Mally.

Framkvæmdastjóri liðsins, Otmar Szafnauer, tekur við hlutverki Bretans hjá liðinu sem er að ganga í gegnum flókin eigendaskipti. Í Spa hafa öll auglýsingaskilti styrktar- og samstarfsaðila þess verið fjarlægð meðan verið er að greiða úr  lagaflækju og fá stöðu liðsins á hreint. Fyrirtækið Sahara Force India á keppnisrétt liðsins en Larence Stroll ræður yfir öllum keppnisbúnaði, þar á meðal bílunum.

Þykir líklegt að Force India þurfi að keppa undir öðru nafni síðar en það er háð samþykki annarra keppnisliða. Þetta gæti þýtt að öll stig sem liðið hefur unnið í ár strikist út og það byrji á núlli. Fari svo gæti það einnig þýtt að skipt verði um báða ökumenn strax. 

Allt bendir til að Lance Stroll, sonur hins nýja eiganda Force India, fari til liðsins. Gerist það strax gæti það orðið til þess að Esteban Ocon fari strax til McLaren og að þróunarökumaðurinn Robert Kubica keppi fyrir Williams í stað Stroll.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert