78. ráspóll Hamiltons

Lewis Hamilton var í þessu að vinna ráspól belgíska kappakstursins í Spa Francorchamps í dramatískri tímatöku sem var lotterí vegna rigningar og síðan ört þornandi brauta.

Hamilton hlaut stærsta vinninginn í þessu lottói því hann var aðeins í fimmta sæti fyrir hinstu atlögu sína, er tíminn var að renna út. Naut hann þess hversu brautin hafði hreinsast af vatni á þremur til fjórum mínútum áður og tók ráspólinn örugglega. Var þetta í 78. sinn sem hann verður hlutskarpastur í tímatöku í formúlu-1.

Í öðru sæti varð Sebastian Vettel á Ferrari og ökumenn Force India klifruðu upp í þriðja og fjórða sæti á lokasekúndunum er flestir aðrir voru hættir. Esteban Ocon varð þriðji sem er hans langbesti árangur í formúlu-1 og Sergio Pererz fjórði.

Rigningin kom liðunum í opna skjöldu því öll sendu þau bíla sína af stað á þurrdekkjum. Óhjákvæmilegt var fyrir alla að koma inn að bílskúr og fá dekk til aksturs í bleytu. Miklu bensíni var dælt á tankana svo menn gætu ekið upp á að hitta á góðan hring og vera í brautinni alveg þar til flaggið félli.

Romain Grosjean á Haas varð fimmti og Kimi Räikkönen á Ferrari sjötti – hann glímdi við tæknivanda og varð að gefa tímatökuna upp á bátinn.

Í sætum sjö til tíu urðu Max Verstappen og Daniel Ricciardo á Red Bull, Kevin Magnussen á Haas of Valtteri Bottas á Mercedes. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert