Vettel spann en samt fljótastur

Sebastian Vettel á Ferrari ók hraðast á seinni æfingu dagsins í Monza á Ítalíu þrátt fyrir að hafa átt í miklum erfiðleikum með að halda bílnum á brautinni.

Vettel átti brösugt með að hemja Ferrarifákinn æfinguna út í gegn og ók til dæmis tvisvar hálfpartinn út úr lokabeygjunni löngu, Parabolica, og á síðasta tímahringnum fór hann yfir strikið með þeim afleiðingum að bíllinn snarsnerist. Rann hann yfir malargildruna utan brautarinnar og nam loks staðar með léttri snertingu við öryggisvegg.

Bíll Vettels laskaðist lítið en Marcus Ericsson á Sauber var ekki jafn heppinn. DSR-vængurinn bilaði með þeim afleiðingum að hann skall harkalega á vegg. Bíllinn stórskemmdist en sjálfur slapp sænski ökumaðurinn ómeiddur.

Liðsfélagi Vettels,  Kimi Räikkönen, átti næstbesta hringinn og Mercedesmennirnir Lewis Hamilton og Valtteri Bottas þriðja og fjórða.

Í sætum fjögur til tíu urðu - í þessari röð - Max Verstappen og Daniel Ricciardo hjá Red Bull, Esteban Ocon og Sergio Perez hjá Force India, Charles Leclerc á Sauber og Nico Hülkenberg á Renault. 

Það segir sitt um beinlínuhraða bílanna að  Verstappen og Ricciardo í fimmta og sjötta sæti voru rétt rúmri sekúndu lengur með hringinn en Vettel. Og Hülkenberg í tíunda sæti var rúmlega 1,9 sekúndum lengur í förum.

Neðstir á lista yfir hröðustu hringi voru McLarenmennirnir Fernando Alonso og Stoffel Vandorne. Voru þeir rúmleag 2,6 og 2,9 sekúndum lengur með hringinn í Monza en Vettel.

1:21.105

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert