Sprenging fagnaðar í Monza

Einhverri skemmtilegustu og sviptingasömustu tímatöku ársins lauk rétt í þessu í Monza með sigri Kimi Räikkönen á Ferrari. Liðsfélagi hans Sebastian Vettel varð annar og þriðji Lewis Hamilton á Mercedes sem hafði forystu fyrir lokaatlöguna að tíma.

Áhorfendur voru ögn niðurlútir eftir að Hamilton skaust fram úr Ferrarifákunum í fyrri lokaatlögunni að tíma. Var það í fyrsta sinn alla helgina sem hann sat í efsta sæti. Þegar rúmar tvær mínútur voru eftir að tímatökunni var Hamilton fremstur, Räikkönen annar og Vettel þriðji.

Lögðu þeir allt í sölurnar í lokaatlögunni og nýttu sér eftir því sem tækifæri bauðst sog frá bílum í brautinni á undan þeim. Vettel virtist njóta sogs frá Hamilton og Räikkönen frá Vettel. Hamilton bætti ekki tíma sinn á lokahringnum og blossaði því upp fagnaðaróp þegar Vettel fór yfir marklínuna og settist á ráspólinn, í aðeins nokkrar sekúndur þó því rétt á eftir skaust Räikkönen fram úr þeim Hamilton og Vettel báðum. Sprakk þá gleðisprenging í stúkum brautarinnar.

Ærðist lýðurinn í formúlumekka Ferrariliðsins og treyst þeir á að þeirra menn bjóði upp á hátíð í kappakstrinum á morgun. 

Ráspóllinn er sá fyrsti sem Räikkönen vinnur á árinu og sá 18. á ferlinum. Síðast sat hann á ráspól í Mónakó í fyrra.

Í sætum fjögur til tíu urðu - í  þessari röð - Valtteri Bottas á Mercedes, Max Verstappen á Red Bull, Romain Grosjean á Haas,  Carlos Sainz á Renault, Esteban Ocon á Force India, Pierre Gasly á Toro Rosso og Lance Stroll á Williams. Er þetta í fyrsta sinn á árinum sem Williamsbíll  kemst í lokalotu tímatöku í formúlu-1.

mbl.is