Sætur sigur í musteri Ferrari

Lewis Hamilton á Mercedes var í þessu að vinna Ítalíukappaksturinn í Monza en öllum ökumönnum finnst fátt skemmtilegra en leggja Ferrari að velli þar. Náði hann forystu er átta hringir af 53 voru eftir en þá voru dekk undir bíl Kimi Räikkönen það illa farin að hann gat ekki lengur haldið Hamilton fyrir aftan sig.

Í þriðja sæti í mark varð Max Verstappen á Red Bull en vegna akstursvítis bættust fimm sekúndur við lokatíma hans og því færðist hann niður um eitt sæti og Valtteri Bottas á Mercedes færðist upp í það þriðja.

Sebastian Vettel á Ferrari hafnaði í fimmta sæti en bíll hans snarsnerist eftir samstuð við Hamilton í fyrsta beygjuhlekknum. Vettel hafði frá ræsingu ekið nokkuð fálmkennt eins og hann væri að leita glufu til að komast fram úr liðsfélaga sínum, Räikkönen. Við árekstur þeirra Hamiltons brotnaði framvængur Vettels sem varð að fara inn að bílskúr til viðgerðar.

Kostaði samstuðið hann þungt í keppninni við Hamilton um heimsmeistaratitil ökumanna en með sigri þess síðarnefnda jók hann enn á stigaforskot sitt, eða úr 17 stigum í 30. Er staðan nú 256:226 Hamilton í vil.

Sigur Hamiltons er sá sjötti á keppnistíðinni en Vettel hefur unnið fimm mót, Daniel Ricciardo á Red Bull tvö mót og Max Verstappen liðsfélagi hans eitt.

Hamilton getur að miklu leyti þakkað liðsfélaga sínum Bottas sigurinn því finnski ökumaðurinn fékk þau fyrirmæli af stjórnborði Mercedes eftir að Räikkönen fór inn að bílskúr til dekkjaskipta að halda landa sínum fyrir aftan sig. Tilgangurinn með því var að hægja á og hindra för Räikkönens svo Hamilton gæti mögulega dregið hann upp eftir sín dekkjaskipti átta hringjum á eftir Räikkönen.

Með þessu hitna dekk þess sem fyrir aftan er og missa eiginleika sína hraðar. Gekk þetta svona fyrir sig í eina 15 hringi áður en Bottas stoppaði fyrir ný dekk og var Hamilton þá kominn að nýju uppundir afturvæng Räikkönens. Ljótur leikur og óíþróttamannslegur en Mercedes er ekki eitt um að spila svona, það myndu sennilega öll lið gera sem væru í keppni um sigur. 

mbl.is