Hamilton sterkastur að lokum

Lewis Hamilton fagnar ráspólnum í Singapúr rétt í þessu.
Lewis Hamilton fagnar ráspólnum í Singapúr rétt í þessu. AFP

Lewis Hamilton á Mercedes var í þessu að vinna ráspól kappakstursins í Singapúr en hann komst ekki á topp tímatöflunnar fyrr en í þriðju og síðustu lotu hennar. Annar varð Max Verstappen á Red Bull og þriðji Sebastian  Vettel á Ferrari.

Ráspóllinn er sá fjórði sem Hamilton vinnur í Singapúr á ferliinum, sá sjöundi á árinu og sá 69. frá upphafi. Í fyrri atlögu að tíma í lokalotunni sló Hamilton keppinautana í rot í eiginlegri merkingu, slíkur var brautartíminn sem hann náði og framfarirnar frá fyrri  lotunum tveimur gríðarlegar.

Greinilegt var að Vettel, sem verið hafði einna sterkastur allan tímann, var brugðið. Fyrir lokaatlögu sína bað hann liðsmenn um að gefa sér almennileg dekk til að svara Hamilton. Framan af virtist ósk hann ætlaði að rætast því hann setti besta tíma á fyrsta brautarkaflanum af þremur en síðan dalaði flugið.

Í sætum fjögur til tíu - í þessari röð - urðu Valtteri Bottas á Mercedes, Kimi Räikkönen á Ferrari, Daniel Ricciardo á Red Bull, Sergio Perez á Force India, Romain Grosjean á Haas, Esteban Ocon á Force India og Nico Hülkenberg á Renault.

mbl.is