Hamilton sér á parti

Sjöundi mótssigurinn á árinu og aukið forskot í keppninni um heimsmeistaratitil ökumanna er uppskera Lewis Hamilton hjá Mercedes í kappakstrinum sem var að ljúkla í Singapúr. Hann var í sérflokki og var aldrei ógnað í fyrsta sæti.

Hamilton ók eins og sönnum heimsmeistarasæmir og leyfði engum að ógna sér. Virtist sem hann sparaði bílinn og héldi nægri fjarlægð í keppinautana framan af, en síðan spretti hann lengra í burtu frá þeim þegar dekkjastoppið nálgaðist.

Sigurinn var sá fjórði sem Hamilton vinnur í Singapúr. Með úrslitum dagsins hefur hann 40 stig á Sebastian Vettel hjá Ferrari, 281-241,  í stað 30 stiga forskots fyrir kappaksturinn (256-226).

Vettel varð í þriðja sæti og tapaði öðru sætinu er hann kom út úr dekkjastoppi rétt fyrir aftan Sergio Peres á Force India. Hvarflaði aldrei að Peres að hleypa honum fram úr - og gæti ástæðuna að finna í samkomulagi liðs hans og Mercedes sem sér Force India fyrir vélum í bíla sína.

Vegna þessa slapp Hamilton í burtu frá Vettel og til að bæta gráu ofan á svart nýttust þessar tafir á ferðum Ferrarimannsins Max Verstappen á Red Bull sem komst upp í annað sætið, sem hann hafði tapað til Vettels á fyrsta hring.

Kappaksturinn í Simgapúr var annars heldur óspennandi og lítið sem ekkert um tilþrif. Keppnin um sæti stóð aðallega á milli ökumanna í sjöunda til 17 sæti. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert