Hankook í keppni við Pirelli

Hankook mun veita Pirelli keppni frá og með 2020.
Hankook mun veita Pirelli keppni frá og með 2020.

Ljóst er að allt stefnir í keppni milli dekkjaframleiðenda um hvaða dekk verða undir keppnisbílum formúlu-1 frá og með 2020. Hefur Alþjóða akstursíþróttasambandið (FIA), staðfest ágæti umsókna tveggja dekkjafyrirtækja til þátttöku í formúlunni frá þeim tíma.

Hér er um að ræða núverandi dekkjaframleiðanda, Pirelli, og suður-kóreska dekkjafyrirtækið Hankook, sem hefur ákveðið að hasla sér völl í formúlu-1. Pirelli hefur verið eina dekkjafyrirtækið frá og með 2011.

Hafnar eru viðræður við bæði fyrirtæki og á grundvelli þeirra mun FIA velja annað hvort þeirra til að leggja liðunum öllum til dekk 2020 til 2023. Ekki verður um það að ræða að bæði fyrirtæki taki þátt í formúlu-1.

Hankook hefur ekki komið að formúlu-1 en er öflugur þátttakandi í öðrum greinum akstursíþrótta, eins og t.d. þýska götubílakappakstrinum DTM og formúlu-3 í Evrópu.

Árið 2020 verða 13 tommu dekk undir bílum formúlu-1 eins og undanfarin ár. Hins vegar verður skipt yfir á 18 tommu dekk árið eftir, 2021. Þegar dekkin stækka verður bannað að brúka rafteppi til að hita þau upp í og við bílskúr liðanna eða á rásmarkinu.

mbl.is