Hamilton gefinn sigurinn

Lewis Hamilton var í þessu að aka fyrstur yfir marklínuna í rússneska kappakstrinum í Sotsjí. Hann fagnaði lítt enda gefin sigurinn er liðsfélaginn Valtteri Bottas var látinn hleypa honum fram úr á 25. hring af 53. 

Bottas hóf keppni af ráspól og þótt hann væri stutt á eftir í öðru sæti komst Hamilton aldrei í tæri til að leggja til atlögu við hann. Virtist hann eiga von á því að fá efsta sætið aftur til sín er ljost var að Mercedes sigraði tvöfalt, en við spurningum hans í talstöðinni komu máttlausar útskýringar - fyrst á því hvers vegna liðsfyrirmælum var beitt og svo aftur í lokin, en þá var honum neitað um sætaskipti og sagt að málin yrðu rætt eftir á. 

Eins og sönnum heimsmeistara sæmir ók Hamilton óaðfinnanlega eftir að honum var færð forystan á silfurfati.

Í þriðja og fjórða sæti urðu Sebastian  Vettel og Kimi Räikkönen hjá Ferrari og hefur Hamilton nú 50 stiga forskot á Vettel í keppninni um heimsmeistaratitil ökumanna, 306:256, þegar fimm mót eru eftir vertíðarinnar og þarf hann aðeins að vera á undan Vettel í mark í næsta móti - alveg sama í hvaða sæti - til að tryggja sér titilinn í ár. 

Bottas er þriðji með 189 stig, Räikkönen er fjórði með 186 stig, Max Verstappen með 158 og liðsfélagi hans hjá Red Bull, Daniel Ricciardo, með 134. 

Verstappen hafði lengi vel forystu í kappakstrinum sem hann hóf í 19 sæti vegna vélaskipta. Var hann kominn upp í fyrsta sæti eftir 17 hringi og hélt forystunni þar til sjö-átta hringir voru eftir. Þá fyrst fór hann inn að bílskúr til dekkjaskipta en ökumönnum er skylt að stoppa minnst einu sinni og skipta yfir á önnur dekk. Ricciardo hóf keppni í 18. sæti en varð í sjötta sæti í mark, einu á eftir Verstappen.

Í sætum sjö til tíu urðu Charles Leclerc á Sauber, Kevin Magnussen á Haas, Esteban Ocon og Sergio Perez á Forcei India.

Í keppni liðanna er staðan 495:442 fyrir Mercedes gegn Ferrari. Red Bull er í þriðja sæti með 292 stig en næstu þrjú  lið færðust öll til í töflunni. Renault var fjórða fyrir mótið en missti bæði Force India og  Haas fram úr sér. Er Force India nú fjórða með 90 stig, Haas í því fimmta með 88 stig og Renault í því sjötta með 87.

mbl.is