Hamilton sigrar keppnislaust

Frá ræsingunni í Suzuka.
Frá ræsingunni í Suzuka. AFP

Lewis Hamilton á Mercedes var í þessu að vinna japanska kappaksturinn í Suzuka og það alveg án nokkurrar keppni. Annar varð liðsfélagi hans Valtteri Bottas og þriðji Max Verstappen á Red Bull.

Með sigrinum er Hamilton kominn með nánast báðar hendur á heimsmeistaratitil ökumanna í ár þó enn séu eftir fjögur mót á keppnistíðinni. Vonir Sebastian Vettel á Ferrari dvínuðu enn frekar í dag þar sem hann varð aðeins sjötti í mark. Hóf hann keppni í áttunda sæti og komst strax á fyrsta hring í keppni við Verstappen um þriðja sætið en Vettel féll niður í síðasta sæti er hann snarsneri bílnum við samstuð við Verstappen á öðrum hring.

Fjórði í kappakstrinum varð Daniel Ricciardo á Red Bull og fimmti Kimi Räikkönen á Ferrari. í sætum sjö til tíu urðu svo Sergio Perez á Force India, Romain Grosjean á Haas, Esteban Ocon á Force India og Carlos Sainz á Renault.

mbl.is