Verstappen fljótastur í Mexíkó

Max Verstappen ók hraðast á fyrstu æfingu keppnishelgarinnar í Mexíkóborg og liðsfélagi hans hjá Red Bull, Daniel Ricciardo, ók næsthraðast.

Þriðju og fjórðu bestu tímana áttu svo Carlos Sainz og Nico Hülkenberg á Renault en það þýðir að í fjórum hraðskreiðustu bílum æfingarinnar voru Renaultvélar.

Besti hringur Verstappens mældist 1:16,656 mínútur eða rúmlega sekúndu betri en á fyrstu æfingu kappakstursins fyrir ári. Hann var og tæplega hálfri sekúndu fljótari en Ricciardo.

Langt bil var síðan í næstu menn, eða rúmlega 1,3 sekúndur í Sainz, tæplega 1,4 í Hülkenberg, rúmlega 1,4 í Hamilton og 1,7 sekúnda í Bottas.

Ökumennirnir óku í löngum lotum til að reyna ná tökum á hröðu dekkjasliti sem tók allan mátt úr hjólbörðunum á aðeins nokkrum hringjum.

Í sætum sjö til tíu á lista yfir hröðustu hringi æfingarinnar urðu - í þessari röð - Sebastia Vettel og Kimi Räikkönen hjá Ferrari, Brendon Hartley á Toro Rosso og Nicholas Laffiti á Force India, sem var 2,4 sekúndum lengur með hringinn í Mexíkó en Verstappen.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert