Ricciardo rændi ráspólnum

Daniel Ricciardo á Red Bull var í þessu að vinna ráspól mexíkóska kappakstursins. Rændi hann eiginlega liðsfélaga sinn Max Verstappen pólnum en hann hafði verið hraðskreiðastur allar æfingarnar þrjár og allar umferðir tímatökunnar nema þá síðustu.

Á endanum munaði aðeins 26 þúsundustu úr sekúndu á Ricciardo og Verstappen. Er þetta í fyrsta sinn frá í bandaríska kappakstrinum árið 2013 sem bílar Red Bull hefja keppni af fremstu rásröð.

Póllinn er sá þriðji sem Ricciardo vinnur á ferlinum og setti hann brautarmet í leiðinni. Allra augu beindust að Verstappen sem aldrei hefur staðið á ráspól, en liðsstjórar Red Bull miklar vonir við að á því yrði breyting í Mexíkó vegna hraða hans á æfingunum.

Það hefði þýtt að Verstappen hefði orðið yngsti ráspólshafi sögunnar og 99. ökumaðurinn til að vinna ráspól í sögu formúlu-1. Það gekk ekki eftir og var þetta í a.m.k. annað sinn á árinu sem Verstappen sér pólinn hverfa sér í lokalotu tímatöku.

Keppnin var jöfn milli ökumanna toppliðanna þriggja en á endanum hafði Lewis Hamilton á Mercedes þriðja sætið og Sebastian Vettel á Ferrari það fjórða. Í sætum fimm til tíu - í þessari röð - urðu Valtteri Bottas á Mercedes, Kimi Räikkönen á Ferrari, Nico Hülkenberg og Carlos Sainz á Renault og svo þeir Charles Leclerc og Marcus Ericsson á Sauber.

Mexíkóski kappaksturinn fer fram annað kvöld, sunnudag, klukkan níu að íslenskum tíma. Allar líkur þykja benda til þess að heimsmeistaratitill ökumanna verði Hamiltons þegar yfir endamarkið verður ekið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert