Ricciardo rændi ráspólnum

Daniel Ricciardo á Red Bull var í þessu að vinna ráspól mexíkóska kappakstursins. Rændi hann eiginlega liðsfélaga sinn Max Verstappen pólnum en hann hafði verið hraðskreiðastur allar æfingarnar þrjár og allar umferðir tímatökunnar nema þá síðustu.

Á endanum munaði aðeins 26 þúsundustu úr sekúndu á Ricciardo og Verstappen. Er þetta í fyrsta sinn frá í bandaríska kappakstrinum árið 2013 sem bílar Red Bull hefja keppni af fremstu rásröð.

Póllinn er sá þriðji sem Ricciardo vinnur á ferlinum og setti hann brautarmet í leiðinni. Allra augu beindust að Verstappen sem aldrei hefur staðið á ráspól, en liðsstjórar Red Bull miklar vonir við að á því yrði breyting í Mexíkó vegna hraða hans á æfingunum.

Það hefði þýtt að Verstappen hefði orðið yngsti ráspólshafi sögunnar og 99. ökumaðurinn til að vinna ráspól í sögu formúlu-1. Það gekk ekki eftir og var þetta í a.m.k. annað sinn á árinu sem Verstappen sér pólinn hverfa sér í lokalotu tímatöku.

Keppnin var jöfn milli ökumanna toppliðanna þriggja en á endanum hafði Lewis Hamilton á Mercedes þriðja sætið og Sebastian Vettel á Ferrari það fjórða. Í sætum fimm til tíu - í þessari röð - urðu Valtteri Bottas á Mercedes, Kimi Räikkönen á Ferrari, Nico Hülkenberg og Carlos Sainz á Renault og svo þeir Charles Leclerc og Marcus Ericsson á Sauber.

Mexíkóski kappaksturinn fer fram annað kvöld, sunnudag, klukkan níu að íslenskum tíma. Allar líkur þykja benda til þess að heimsmeistaratitill ökumanna verði Hamiltons þegar yfir endamarkið verður ekið.

mbl.is