Hamilton áminntur

Lewis Hamilton missti tök á bílnum og ók yfir bannlínu ...
Lewis Hamilton missti tök á bílnum og ók yfir bannlínu í Abu Dhabi. AFP

Lewis Hamilton hefur fengið sína aðra áminningu á árinu en hann braut reglur er hann hugðist ljúka hring og aka inn að bílskúr Mercedes í Abu Dhabi í dag.

Ók hann yfir heila hvíta akreinarlínu innreinar bílskúrasvæðisins undir lok fyrstu æfingar keppnishelgarinnar í Abu Dhabi. Klúðraði hann bremsupunkti sínum og ók út úr innreininni. Reyndi hann að bæta fyrir mistökin með því að nema staðar og bakka bílnum aftur inn í innreinina.

Niðurstaða eftirlitsdómara mótsins var að með þessu hefði Hamilton brotið reglur. Slepptu þeir honum við akstursvíti og létu áminningu duga. Færist hann því ekki afturábak á rásmarkinu á sunnudag.

mbl.is