Sviptingar í sandinum

Lewis Hamilton (t.h.) og Sebastian Vettel á blaðamannafundi í Abu ...
Lewis Hamilton (t.h.) og Sebastian Vettel á blaðamannafundi í Abu Dhabi. AFP

Óhætt er að segja að lokakappakstur ársins í Yasmarina-brautinni í Abu Dhabi hafi verið sviptingasamur. Þó ekki beint um toppsætið en Lewis Hamilton var öruggur sigurvegari 11 mótsins í ár. Annar varð Sebastian Vettel á Ferrari og þriðji Max Verstappen á Red Bull.

Hamilton hóf keppni af ráspól og hélt fyrsta sætinu þar til öryggisbíll var kvaddur út í brautina öðru sinni, er Ferrarifákur Kimi Räikkönen bilaði í miðri braut. Skaust hann þá inn að bílskúr til dekkjaskipta, einn ökumanna. Virtist það  í fyrstu einkennileg ráðstöfun en herbragð þetta kom honum vel undir lokin.

Eftir þetta þurfti Hamilton að bíða tugi hringja eftir að keppinautarnir skiptu um dekk. Náði hann þá forystu á ný og hélt henni alla leið í mark. Ók hann yfir marklínuna 2,6 sekúndum á eftir Hamilton og 10 sekúndum seinna kom Verstappen í mark. Var þetta 73. mótssigur Hamiltons í formúlu-1.

Keppnin byrjaði með miklum látum er Renaultbíll Nicks Heidfeld tókst á loft við samstuð við Haasbíl Romains Grosjean í einni af fyrstu beygjum hringsins. Tókst Renaultinn á loft og fór veltur í loftinu áður hann skall aftur niður á hvolfi. Sakaði Hülkenberg ekki.

Átök um sæti og hörð og stundum langvarandi og skemmtileg návígi áttu sér stað langt fram í kappaksturinn og kom minnst helmingur ökumanna við sögu.

Daniel Ricciardo varð fjórði í síðasta móti sínu fyrir Red Bull og Fernando Alonso á McLaren var einu sæti frá stigum í hinsta kappakstri sínum í formúlu-1. Freistaði hann þess með stífri sókn síðustu fjóra til fimm hringina að komast sæti ofar en sótti of djarft fyrir gatslitin dekkin og mistókst fyrir bragðið tvisvar að bremsa og rann út úr brautinni. Var Alonso valinn ökumaður mótsins en aftur á móti fundu dómarar kappaksturins að sókndirfsku hans í lokin og veittu honum þrjú refsistig fyrir að skauta ítrekað út úr beygjum en með því var hann talinn hafa stytt sér leið.

 Draumur Vallteri Bottas um að vinna sigur annað árið í röð í Abu Dhabi og sinn fyrsta á árinu varð að engu. Breyttist meir að segja í martröð er hann tapaði þremur fram úr sér á stuttum kafla þegar vel var á mótið liðið. Varð honum að falli að læsa hvað eftir annað bremsum fyrir beygjur. Bottas hóf keppni annar en varð að endingu fimmti. 

Carlos Sainz kláraði síðasta kappakstur sinn fyrir Renault með glans en hann kom í mark í sjötta sæti. Í sætum sjö ti ltíu urðu svo Charles Leclerc á Sauber, Sergio Perez á Force India, Romain Grosjean Haas og svo liðsfélagi hans Kevin Magnussen.

mbl.is