Frumsýningarannir í næstu viku

Williamsbíllin mun breytast mjög með tilkomu nýs aðalstyrktaraðila liðsins.
Williamsbíllin mun breytast mjög með tilkomu nýs aðalstyrktaraðila liðsins. AFP

Miklar annir verða hjá keppnisliðum formúlu-1 í næstu viku við frumsýningu keppnisbílanna.

Haas-liðið hefur riðið á vaðið og sýndi í vikunni sem er að líða nýtt og gjörbreytt útlit keppnisbílsins. Til þess var brúkaður bíll frá í fyrra með framvængnum eins og hann verður í ár, einnig verulega breyttur frá í fyrra.

Á mánudaginn kemur röðin að Williams og Toro Rosso, í báðum tilvikum í  beinni útsendingu á netinu. Williams mun aðeins sýna nýtt útlit en bíður með keppnisbílinn nýja fram að b+ilprófunum í Barcelona í lok mánaðarins.

Á þriðjudag, 12.febrúar, efnir Renault til frumsýningarathafnar í bílsmiðju liðsins í Enstone í Englandi.

Þrjú lið munu svo frumsýna miðvikudaginn 13. febrúar. Mercedes í Silverstone brautinni í Englandi og Racing Point (áður Force India) í Toronto í Kanada, en Red Bull hefur enn ekki gefið upp staðsetningu sinnar athafnar.

Þá eru aðeins þrjú lið ótalin, McLaren sem frumsýnir í höfuðstöðvum sínum í woking suður af London næstkomandi fimmtudag, 14. febrúar; Ferrari sem sýnir daginn eftir í bækistöðvum sínum í Maranello og loks Alfa Romeo sem loka hringnum með frumsýningu í Barcelona mánudaginn 18. febrúar nk.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert