Vettel 0,003 sekúndum á undan Hamilton

Lewis Hamilton í Barcelona í dag.
Lewis Hamilton í Barcelona í dag. AFP

Sebastian Vettel á Ferrari ók hraðast á lokadegi hálfsmánaðar reynsluaksturs formúluliðanna í Barcelona á Spáni. Varð hann þó að hætta akstri fyrr en ráðgert var vegna rafkerfisbilunar.

Vettel ók út í brautarkant er hálf þriðja klukkustund lifði enn af akstursdeginum og tókst ekki að gera við bilunina áður en æfingin var flautuð af.

Þrátt fyrir allt náði Vettel 110 hringjum en sá hraðasti mældist 1:16,221 mínúta. Var hann aðeins þremur þúsundustu úr sekúndu fljótari en Lewis Hamiltoni á Mercedes. Staðfesti árangur þeirra að ökumenn Mercedes voru með „sandpoka“ í bílunum þar til í dag, en svo er kveðið að orði þegar ökumenn halda aftur af sér og freista þess að villa um fyrir keppinautunum um raunverulega getu sína.

Valtteri Bottas hjá Mercedes  átti svo þriðja besta tímann (1:16,561) en hann ók fyrir lið sitt í morgun og Hamilton eftir hádegi.

Í næstu sætum á lista yfir hröðustu hringi urðu Nico Hülkenberg á Renault, (1:16,842), Daniil Kvyat á Toro Rosso (1:16,898) og Carlos Sainz á McLaren (1:16,913). Þeir voru þeir einu sem komust undir 1:17 mínútur á eftir þremur fyrstu.

Max Verstappen hjá Red Bull gat aðeins ekið 29 hringi í dag vegna bilunar í gírkassa. Setti hann einungis ellefta besta tímann, en á eftir honum að tíma urðu Sergio Perez á Racing Point og Robert Kubica á Williams.

Lengst ók Sainz í dag eða 134 hringi, Räikkönen fór 132 og Kvyat 131. .

Sebastian Vettel á ferð í Barcelona í dag, lokadegi þróunaraksturs ...
Sebastian Vettel á ferð í Barcelona í dag, lokadegi þróunaraksturs formúluliðanna. AFP
Valtteri Bottas í Barcelona í dag.
Valtteri Bottas í Barcelona í dag. AFP
mbl.is