Breyttir bílar og nýir ökumenn

Öryggisbúnaður ökumanna á að vera skilvirkari og öflugri en nokkru ...
Öryggisbúnaður ökumanna á að vera skilvirkari og öflugri en nokkru sinni áður.

Keppni í formúlu-1 hefst að nýju um helgina eftir fjögurra mánaða hlé sem liðin hafa brúkað til að smíða nýja keppnisbíla í samræmi við tæknireglur íþróttarinnar sem tekið hafa talsverðum breytingum frá í fyrra. Samkvæmt venju fer fyrsta mótið fram í Melbourne í Ástralíu.

Aðeins Mercedes og bandaríska liðið Haas, tvö lið af tíu, tefla fram sömu ökumönnum og í fyrra. Mun athyglin í þessu sambandi beinast mjög að hinum unga Charles Leclerc sem eftir aðeins nokkra mánuði á jómfrúrári sínu hjá Sauber var ráðinn til Ferrari í ár. Helsta breytingin auk hans er brottför Daniels Ricciardo frá Red Bull til Renault og Kimi Räikkönen frá Ferrari til Sauber, sem nú heitir reyndar Alfa Romeo.

Eiginlega er þó mál málanna að pólski ökumaðurinn Robert Cubica hefur keppni í formúlunni á ný eftir átta ára fjarveru. Brotnaði hægri handleggur hans í mask og rifnaði næstum af í slysi í rallakstri 2011. Batt það óhapp enda á vaxandi feril Kubica í formúlunni. Hann gafst þó aldrei upp og eftir margra ára endurhæfingu rætist draumur hans um að keppa aftur í formúlu-1 á sunndag. Keppir hann fyrir hið gamla stórveldið Williams en hann var reynslu- og þróunarökumaður þess í fyrra. Ótrúleg endurkoma frábærs ökumanns sem brúkar vinstri höndina miklu meira (70%) á stýrinu en þá hægri vegna skertrar hreyfigetu.

Lýkur drottnun Mercedes?

Undanfarin ár hefur Mercedes-liðið verið drottnandi í formúlunni, eða allar götur frá 2014. Telja spekingar að á því verði breytingar nú og segir liðsstjórinn Toto Wolff að liðið muni fá alvörukeppni. Hann virðist undirbúinn að glata þeirri drottnun sem lið hefur notið undanfarin ár. Spáir hann „almennilegri keppni“ um titlana og segir lið sitt undirbúið undir það. „Í fyrra urðum við að leggja allt í sölurnar til að koma út sem sigurvegarar. Miðað við útkomu æfinganna í Barcelona verður keppnin í ár enn harðskeyttari. Allt verður þanið til hins ýtrasta. Það er spennandi tilhugsun,“ segir hann í aðdraganda fyrsta móts.

Heimsmeistarinn Lewis Hamilton hjá Mercedes sagði í lok reynslu- og þróunaraksturs liðanna í Barcelona í febrúar, að Ferrari-fákurinn væri hraðskreiðari en bílar annarra liða. Munaði hálfri sekúndu á hring í forskoti Ferrari á helstu keppinautana, eins og Mercedes og Red Bull.

Markmið Hamiltons í ár er að vinna titil ökumanna í sjötta sinn. Segist hann vera betur í stakk búinn til þeirrar keppni en nokkru sinni áður. Af þeirri bjartsýni mun ekki af veita ef mat hans á getu Ferrari-bílsins reynist rétt þegar keppnin hefst í Melbourne á sunnudaginn kemur. „Það verður á brattann að sækja en við vitum hvernig á að fara að því,“ sagði Hamilton.

Ferrariliðið heitt

Veðjað er á að Ferrari ráði ferðinni í opnunarmótinu í Melbourne. Þar kemur í fyrsta sinn í ljós hvernig ungi Mónakómaðurinn Charles Leclerc, sprottinn úr ökumannaakademíu Ferrari, stendur gagnvart liðsfélaga sínum Sebastian Vettel, fjórföldum heimsmeistara. Í þróunarakstrinum í Barcelona voru þeir jafngóðir. Vettel er að hefja sitt fimmta starfsár hjá Ferrari. Til að verða ekki undir hjá stuðningsmönnum liðsins þarf hann að bæta sig frá í fyrra er óstöðug frammistaða varð honum að falli. Michael Schumacher varð á sínum tíma að þreyja fimm ár hjá Ferrari áður en hann vann titil ökumanna sem liðsmaður þess. Ætli Vettel leiki það eftir?

Á grundvelli þróunarakstursins í Barcelona álíta sérfræðingar að Ferrari standi betur að vígi en um árabil. Hefur liðið engan titil unnið í áratug og á því ætla Ferrari-menn nú að ráða bót. Í fyrra glutraði liðið tækifærinu með mistökum og bilunum. „Ökumönnum okkar verður frjálst að keppa innbyrðis,“ segir liðsstjórinn Mattio Binotto, en bætir við að Vettel muni njóta forgangs á Leclerc kalli aðstæður á liðsskipanir.

Norris fljótastur á McLaren

Ungir ökumenn munu væntanlega velgja þeim eldri og reyndari verulega ...
Ungir ökumenn munu væntanlega velgja þeim eldri og reyndari verulega undir vöngum í ár.


Fjórir ökumenn þreyta frumraun sína í formúlu-1 í ár; Bretinn Lando Norris hjá McLaren, landi hans George Russell hjá Williams, bresk-taílenski ökumaðurinn Alexander Albon hjá Toro Rosso og Ítalinn Antonio Giovinazzi hjá Alfa Romeo.

Norris verður yngsti ökumaður íþróttarinnar í ár, aðeins 19 ára. Hann var þróunar- og varaökumaður McLaren í fyrra. Hann á sigursælan feril að baki í lægri formúlum og hefur mikla reynslu af keppni í návígi. Hann hóf keppni aðeins sjö ára að aldri og naut ríkulegs fjárstuðnings moldríks föður við að koma sér áfram. Varð hann heimsmeistari í körtukappakstri 2013 og í fyrra varð hann annar á eftir Russell í heimsmeistarakeppninni í formúlu-2.

Stærsta áskorun Norris verður að endurreisa gamalt topplið sem hefur verið langt undir getu undanfarin ár. Hann rak smiðshöggið á síðasta degi vetraræfinganna í Barcelona með því að ná mestum hraða í hring þann daginn. Spurning er hvort það sé vísbending um betri daga fyrir McLaren.

„Sértu í vafa, aktu í botni“

George Russel hefur þótt afburðaefnilegur en fyrir utan titil ökumanna í formúlu-2 í fyrra varð hann einnig heimsmeistari ökumanna í GP3-formúlunni 2017. Gefur hann aldrei neitt eftir eins og einkennisorð hans sýna: „sértu í vafa, aktu í botni“. Eins og Norris keppir Russell með gömlu stórliði sem hefur ekki náð fótfestu í formúlunni um árabil. Spurning er hvort þeim Kubica takist að reisa Williams úr öskustónni.

Russell varð Bretlandsmeistari í körtukappakstri 2009 og vakti síðar áhuga Mercedes sem tók hann upp á arma sína og réði hann í þróunarskóla sinn 2017. Í skólun hans fólst meðal annars reynsluakstur á stöku kappaksturshelgum með Force India, liði sem nú hefur fengið nýtt nafn, Racing Point. Russell sem er 21 árs er lýst sem lítillátum og greindum. „Ég veit hvers ég er megnugur og ég veit hvað mig dreymir um, en mikilvægt er að ég missi ekki stjórn á sjálfum mér,“ sagði hann.

Hinn 22 ára gamli Alexander Albon er mikill vinur Russells og fylgir þeim Norris inn í formúlu-1 úr formúlu-2 sem fóðrað hefur margan ökumanninn upp í aðalgreinina. Orð fór af framúrtökum hans en hann var einnig liðsfélagi Charles Leclerc hjá franska liðinu ART í GP3-formúlunni 2016. Það ár urðu þeir í tveimur efstu sætum í keppni ökumanna í greininni.

Albon er fæddur í London, á breskan föður og taílenska móður. Aðeins einu sinni áður hefur Taíland átt fulltrúa í formúlu-1 en það var Birabongse Bhanudej Bhanubandh prins, eða „B Bira“ á sjötta áratrug síðustu aldar. Tólf ára gamlan tók Red Bull hann upp á arma sína 2012 og hann klifraði hægt og bítandi upp metorðastigann uns hann varð þriðji í formúlu-2 í fyrra á eftir Russell og Norris. Hjá Toro Rosso-liðinu kemur Albon í stað Pierre Gasly, sem fékk stöðuhækkun er hann var ráðinn til að keppa fyrir Red Bull.

Fyrsti Ítalinn í átta ár

Antonio Giovinassi er aldursforseti nýliðanna, 25 ára gamall. Hann er þó ekki algjörlega óþekktur á rásmarkinu þar sem hann hljóp árið 2017 í skarð hins slasaða Pascals Wehrlein hjá Sauber. Stóð hann sig vel með tólfta sætinu í Melbourne en í næsta móti, í Kína, flaug hann á öryggisvegg bæði í tímatökunni og sjálfum kappakstrinum.

Giovinassi sýndi öflugt kappaksturseðli 2016 er hann lauk vertíðinni rétt á eftir þáverandi liðsfélaga sínum, Pierre Gasly. Hann er fyrsti ítalski ökumaðurinn í formúlu-1 frá því Jan Trulli hætti keppni 2011.

Giovinassi gekk upp í gegnum þróunarverkefni Ferrari fyrir unga ökumenn og var varaökumaður liðsins 2017 og 2018, sinnti akstri á æfingum og í ökuhermi. „Ég er tilbúnari fyrir formúluna nú en 2016 og 2017. Þetta er fyrsta vertíðin mín á eigin bíl, hjá góðu liði og með liðsfélaga [Kimi Räikkönen] sem ég get lært heilmikið af,“ sagði Giovinassi.

Öruggari hjálmar

Hjálmar ökumanna í ár verða nýrrar hönnunar til að auka enn frekar á öryggi. Eiga þeir að standast högg frá málmskífu sem skotið væri í hjálminn á 250 km/klst hraða. Þeir verða einnig að þola 790°C eldblossa og loftriffilsskot í hjálmglerið ásamt því að brotna ekki þótt 10 kílóa lóð væri látið falla á þá úr fimm metra hæð.

Vegna breytinga á hönnunarforsendum bílanna verða fram- og afturvængir einfaldari og vindskeiðar á hliðum smærri. Tilgangurinn er að draga úr vængpressu og skilvirkni lofstreymis um og yfir bílana. Eftir æfingarnar í Barcelona létu liðin í ljós efasemdir um að þessar breytingar skiluðu tilætluðum árangri, að auka á keppni í návígi.

Keppnisdekkin eru einnig nýrrar gerðar og verða í þremur litum, rauð (mjúk), gul (meðalhörð) og hvít (hörð).

Keppnistíðin stendur næstum níu mánuði, lýkur í Abu Dhabi 1. desember. Hefur ekki verið keppt svo lengi frá 1963 er Jim Clark vann titilinn á Lotus með sigri í sjö mótum af tíu frá Mónakó í maí til jóla í Suður-Afríku.

Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.790 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »