Hamilton bestur á fyrstu æfingu

Lewis Hamilton, Daniel Ricciardo og Sebastian Vettel á blaðamannafundi í …
Lewis Hamilton, Daniel Ricciardo og Sebastian Vettel á blaðamannafundi í Melbourne fyrir æfingar og keppni í Melbourne. AFP

Lewis Hamilton á Mercedes ók hraðast á fyrstu æfingu fyrstu kappaksturshelgar ársins, í Albertsgarði í Mebourne í Ástralíu. Var hann þó aðeins 38 þúsundustu úr sekúndu fljótari en Sebastian Vettel á Ferrari.

Besti hringur Hamiltons mældist 1:23,599 mínútur, Vettels 1:23,637 og liðsfélagi hans Charles Leclerc var aðeins 74 þúsundustu á eftir Hamilton á 1:23, 673 mín.

Fjórða besta hringinn átti Max Verstappen á Red Bull, þann fimmta Valtteri Bottas á Mercedes og landi hans Kimi Räikkönen á Alfa Romeo, næstum 0,3 sekúndum á eftir Hamilton.

Í sætum sjö til tíu urðu Daniil Kvyat á Toro Rosso, Pierre Gasly á Red Bull, Kevin Magnussen á Haas og Nico Hülkenberg á Renault, sem sat þó  lengstum æfingarinnar í bílskúr sínum vegna bilunar. Liðsfélagi hans og heimamaður, Daniel Ricciardo, setti aðeins 17. besta tímann, 4,3 sekúndum á eftir Hamilton.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert