Nefbroddinum á undan

Lewis Hamilton var nefbroddinum á undan Bottas á seinni æfingu …
Lewis Hamilton var nefbroddinum á undan Bottas á seinni æfingu dagsins í Melbourne. AFP

Lewis Hamilton á Mercedes ók einnig hraðast á seinni æfingunni í Melbourne sem á þeirri fyrri. Liðsfélagi hans Valtteri Bottas andaði þó niður hálsmál hans því hann var aðeins 48 þúsundustu úr sekúndu lengur í förum.

Þessir tveir voru í nokkrum sérflokki því þriðji maður, Max Verstappen á Red Bull var 0,8 sekúndur frá topptíma Hamiltons. Verstappen var svo aðeins 42 þúsundustu fljótari í förum en liðsfélagi hans Pierre Gasly.

Sebastian Vettel á Ferrari var svo aðeins 31 þúsundasta á eftir Gasly og Kimi Räikkönen á Alfa Romeo var aðeins 0,1 sekúndu á eftir Vettel.

Nico Hülkenberg á Renault var aðeins tveimur þúsundustu (0,002) úr sekúndu á eftir Räikkönen.

Í sætum átta til tíu á lista yfir hröðustu hringi urðu Daniel Ricciardo á Renault, Charles Leclerc á Ferrari og Romain Grosjean, sem var 1,2 sekúndur lengur með hringinn en Hamilton. 

mbl.is