Hótar að yfirgefa formúluna

Lando Norris á McLarenbílnum í Melbourne um nýliðna helgi.
Lando Norris á McLarenbílnum í Melbourne um nýliðna helgi. AFP

McLarenliðið hefur í hótunum um að draga sig út úr formúlu-1 en gamla breska risaliðið hefur átt ansi erfið a daga í íþróttinni undanfarin fjögur ár.

Liðsstjórinn Zak Brown segir að formúla-1 þurfi í framtíðinni að vera fjárhagslega fýsileg og bjóða upp á „réttláta keppni og samkeppnishæfi“. Á komandi þriðjudag fer fram fundur liðanna og eigendafélags formúlu-1, Liberty Media, um keppnisreglur sem koma eigi til framkvæmda 2021.

„Verði það ekki niðurstaðan myndum við þurfa að velta alvarlega fyrir stöðu okkar í íþróttinni,“ hefur blaðið Guardian eftir Brown. Hann sagði að íþróttin yrði að sýna fjárhagslega ábyrgðarkennd og sýndist liðinu nýjar reglur ekki í þeim farvegi yrði liðið að meta stöðu sína og þátttöku.

Einn af ásteytingarsteinunum, gefur hann til kynna, er að Ferrari knýr á um að halda sérstöðu sinni sem færir því fjarmuni langt umfram önnur lið formúlu-1. „Við erum allir sammála um að Ferrari er stærsta nafnið og ber umbun vegna þess, en ekki af þeirri stærðargráðu sem verið hefur. Þá umbun ætti ekki heldur að brúka í kappakstursliðið.So,“ segir Brown.

Brown segist búast við „eldglæringum“ á fundinum en ljúka þarf smíði nýrra regla fyrir júnílok í sumar. „Þannig ganga samningar fyrir sig en ég er bjartsýnn á að formúlan breyti rétt og öll liðin tíu skrifi upp á samning sem felur í sér betri og samkeppnismeiri íþrótt frá og með 2021“.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert