„Eins og stríðsátök“

Aðdáandi Nico Hülkenberg brosir hér breitt en líklega breyttist það …
Aðdáandi Nico Hülkenberg brosir hér breitt en líklega breyttist það er hann féll úr leik í Barein. AFP

Nico Hülkenberg hjá Renault segir að fyrsti hringur kappakstursins í Barein hafi verið eins og átök á vígvelli en á þeim tíma tókst honum að vinna sig úr 17. sæti í það 11.

Áfram hélt hann sókn sinni fram á við og var lengstum í sjötta sæti, eða þar til bilun felldi hann úr leik er örfáir hringir voru eftir.

„Ég stóð mig ágætlega, átti fínan akstur og kom vel í gegnum allan hamaganginn. Þetta var eins og á vígvelli, alveg brjálað ástand, bílar út um allt, snertingar, neistaflug og bílpartar fljúgandi um allt. Einn þeirra skall á hjálmi mínum,“ sagði Hülkenberg.

„Allt gerðist sem gat gerst og kappaksturinn var frábær. Ég tók heilmikið fram úr bílum sem alltaf er fjör. Því hefði það verið viðeigandi gjöf til mín og liðsins að landa þessum stigum sem voru í hendi en gengu okkur úr greipum. Við verðum bara að bæta fyrir það síðar.

Liðsfélaginn Daniel Ricciardo varð fyrir vélarbilun á sama hring og næstum sama bletti og Hülkenberg og féll líka úr leik. Hann segir það stórmál að Renault nái tökum á endingarvandanum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert