Ferrari með uppfærslur í Bakú

Mattia Binotto (t.h.) djúpt hugsi á stjórnborði Ferrari í Sjanghæ.
Mattia Binotto (t.h.) djúpt hugsi á stjórnborði Ferrari í Sjanghæ. AFP

Ferraristjórinn Mattia Binotto segir lið hans mæta til leiks í Bakú komandi helgi með ýmsar uppfærslur í keppnisbílnum.

Ferrari hefur átt erfiða byrjun í fyrstu þremur mótunum og hefur mátt horfa á Mercedes nánast hverfa úr augsýn í keppni.

Mercedes  hefur unnið fyrstu þrjú mótin tvöfalt, þ.e. átt bíla sína í tveimur fyrstu sætum í hverju móti. Í þeim hefur Ferrari aðeins tvisvar átt einn ökumann á verðlaunapalli.

Ferrari hefur þó sýnt merki um mikinn hraða, einkum þó í Barein þar sem liðið vann fremstur rásröðina í tímatökunni og allt stefndi  í sigur Charles Leclerc í keppninni, eða allt þar til vélin bilaði er um tugur hringja var eftir  í mark. Varð hann að gera sér þriðja sæti að góðu.

Ferrari hefur aldrei unnið sigur í Bakú en Binotto segir liðið hafa undirbúið sig sérstaklega vel undir kappaksturinn og ætli sér sigur. Hafi það legið yfir bílgögnum úr fyrstu tveimur mótunum og greint þau með tilliti til þess hversu bæta mætti uppsetningu bílanna.

Binotto segir brautaraðstæður krefjast mikils af vélunum, bæði brunahluta hennar og tvinnkerfi. Hann segir framúrakstur verða auðveldan á lengsta beina kafla brautarinnar, sem mælist 2,2 km langur.

„Yfirborð brautarinnar er afar slétt og dekkjaslit því venjulega lítið. En þar sem dekkin hitna lítt getur reynst örðugt að koma þeim í réttan vinnsluhita.  Við vitum frá fyrri tíð að miklar líkur eru á að öryggisbíll verði sendur út í brautina og tekið er tillit til þess í herfæði liðanna. Við komum með nokkrar uppfærslur til Bakú og eru það fyrstu skrefin í áframþróun keppnisbíls Ferrari,“ segir Binotto.

mbl.is