Bottas áfram fljótastur

Lewis Hamilton dró Bottas næstum uppi á seinni æfingunni í ...
Lewis Hamilton dró Bottas næstum uppi á seinni æfingunni í Barcelona. AFP

Valtteri Bottas á Mercedes ók hraðast á seinni æfingu dagsins sem var að ljúka í Barcelona en liðsfélagi hans Lewis Hamilton var skammt á eftir en á þeim munaði aðeins 49 þúsundustu úr sekúndu.

Stutt var í næstu bíla en Ferrarimennirnir Charles Leclerc og Sebastian Vettel urði í þriðja og fjórða sæti og  munaði 0,3 úr sekúndu á þeim og Bottas. Talið var að þeir hafi haldið aftur af bílum sínum á æfingunni og myndu láta til sín taka á morgun í staðinn. Var Ferrarifákurinn áberandi stöðugur í brautinni en Mercedesbílarnir, sérstaklega Hamiltons, skrensuðu talsvert við beygjur.

Í sætum fimm til tíu - í þessari röð - urðu Max Verstappen á Red Bull, Romain Grosjean á Haas, Pierre Gasly á Red Bull, Kevin Magnussen á Haas, Carlos Sainz á McLaren og Daniil Kvyat á Toro Rosso, sem var tæplega 1,5 sekúndum lengur með hringinn en Bottas.

mbl.is