Fimmta tvenna Mercedes

Lewis Hamilton sigrar í Barcelona í dag.
Lewis Hamilton sigrar í Barcelona í dag. AFP

Lewis Hamilton var í þessu að vinna Spánarkappaksturinn í Barcelona og það örugglega. Var aldrei ógnað að ráði af  liðsfélaga sínum Valtteri Bottas sem varð annar í mark. Þar með hafa þeir unnið fimm fyrstu mót ársins tvöfalt; Hamilton  verið fremstur þrisvar og Bottas tvisvar.

Max Verstappen á Red Bull skaust upp í þriðja sæti í ræsingunni og hélt því út í gegn þrátt fyrir taktískar breytingar í akstrinum af Ferrari sem freistaði alls til að ná öðrum sinna manna á verðlaunapall.

Á endanum varð Sebastian Vettel fjórði og Charles Leclerc fimmti. Í öðrum stigasætum - í þessari röð - urðu Pierre Gasly á Red Bull, Kevin Magnussen á Haas, Carlos Sainz á McLaren, Daniil Kvyat á Toro Rosso og  Romaine Grosjean á Haas, sem varð tíundi í mark.

Með sigrinum tók Hamilton forystu í stigakeppninni um heimsmeistaratitil ökumanna og hefur aflað 112 stiga gegn 105 stigum Bottas. Í þriðja sæti er Verstappen með 66 stig, fjórða sæti Vettel með 64 og Leclerc er með 57. 

Í keppni liðanna er Mercedes með 217 stig, Ferrari 121 og Red Bull 87. Í fjórða sæti er McLaren með 22 stig. 

Lewis Hamilton fagnar sigri sínum í Barcelona í dag.
Lewis Hamilton fagnar sigri sínum í Barcelona í dag. AFP
Charles Leclerc (framar) og Sebastian Vettel háðu rimmur í Barcelona ...
Charles Leclerc (framar) og Sebastian Vettel háðu rimmur í Barcelona en véku síðan einu sinni hvor, ef það mætti verða til að raga afremstu ökumenn uppi. AFP
mbl.is