„Á góða möguleika á heimsmeistaratitlinum“

Viðtalið við Niki Lauda á baksíðu Morgunblaðsins 26. mars 1977. …
Viðtalið við Niki Lauda á baksíðu Morgunblaðsins 26. mars 1977. Því var haldið áfram inni í blaðinu, sem svo algengt var í þá daga.

Niki  Lauda, sem lést í gær, fór að minnsta kosti einu sinni um Ísland á leið til og frá keppni í formúlu-1. Það var föstudaginn 25. mars 1977. Gisti hann á Hótel Loftleiðum en hélt svo snemma næsta dags förinni áfram til Kaliforníu í Bandaríkjunum. Þar fór  hann með sigur af hólmi, sinn fyrsta á árinu. Er af honum fréttist í Reykjavík skundaði blaðamaður á vettvang og tók kappann tali. Fer viðtalið hér á eftir í heild.     

„Nei, ég er ekkert að hugsa um að hætta kappakstri þrátt fyrir þetta alvarlega slys sem ég lenti í á s.l. ári,“ sagði austurríska kappaksturshetjan Niki Lauda í spjalli við Morgunblaðið á Loftleiðahótelinu í gærkvöldi, en Lauda er meðal frægustu kappaksturskappa sem nú eru á dögum. Hann varð heimsmeistari í kappakstri Formúlu-1 1975. Þegar hann lenti í slysinu á Nürburgring kappakstursbrautinni í Þýzkalandi í ágúst 1976, hafði hann forystu í heimsmeistarakeppni ökumanna. Eftir slysið var honum vart hugað líf en hann slasaðist illa á höfði, brenndist og brotnaði. Lauda sleppti þó aðeins einni keppni úr vegna slyssins og hélt áfram forystu í heimsmeistarakeppninni þar til í síðustu umferð sem fór fram á Japan í okt. s.l., en þá skauzt Bretinn James Hunt einu stigi upp fyrir Lauda og varð þar með heimsmeistari.

„Ég tel mig eiga mikið eftir á kappakstursbrautinni,“ hélt Lauda áfram, „og ég hef lýst því yfir að ég ætla að verða heimsmeistari  í  kappakstri nokkrum sinnum. Við það ætla ég að standa. Þegar maður hættir að keppa getur maður flutzt til lands eins og Íslands og tekið því rólega,“ sagði Lauda og hló við, en þess má geta að meðalhraðinn á kappakstursbrautinni er oft um 200 km á klukkustund, en kemst upp í 300 km á klukkustund.

Lauda kom til Reykjavíkurflugvallar i einkaþotu sinni ásamt eiginkonu sinni Marlene Lauda ljósmyndafyrirsætu, Helmut Zwickl blaðamanni frá Kurier-Vienna, sem er stærsta dagblað Austurríkis, en Zwickl hefur skrifað margar heimsþekktar bækur um kappakstur og fylgir hann Lauda til þess að skrifa um feril hans.

Þegar Morgunblaðið spurði Lauda hvort einhverrar hræðslu gætti hjá honum í keppnum eftir fyrrgreint slys, sagði hann: „Þegar maður hefur tekið ákvörðun um að keppa, þá sezt maður upp í kappakstursbílinn og hugsar um það eitt að keyra og keyra hratt, þá er enginn tími til þess að hugsa um annað.“

„Í síðustu umferð heimsmeistarakeppninnar 1976 þegar James Hunt varð heimsmeistari,“ sagði Lauda, „og skauzt eitt stig yfir mig, þá hafði ég hætt keppni eftir tvo hringi á brautinni og lýst því yfir að óveðrið sem dundi yfir keppnisdaginn skapaði slíkar lífshættulegar aðstæður fyrir alvöru kappaksturskeppni að ég vildi heldur lifa í stað þess að eiga á hættu að ganga í gegn um eitthvað líkt því sem ég hafði gengið í gegn um fyrr á árinu.“

Þegar Lauda var spurður um álit á hæfni James Hunt heimsmeistara s.l. ár og horfur á úrslitum keppninnar og möguleikum hans, sagði hann: „James Hunt er mjög góður, en þeir eru allir góðir og ég tel að keppnin verði mjög jöfn í ár. Ég á góða möguleika á heimsmeistaratitlinum sjálfur því ég er í góðu formi, en um úrslitin skulum við ræða í árslok.“

Lauda áætlaði að halda frá íslandi snemma í morgun áleiðis til Kaliforniu þar sem hann mun taka þátt í bandarísku umferðinni í heimsmeistarakeppninni sem fram fer á Long Beach.“

Lokaorð Lauda í samtalinu reyndust orð að sönnu því hann stóð uppi sem heimsmeistari í lok keppnistímabilsins. Hann varð meistari 1975, 1977 og 1984.

Alain Prost (t.v.) og Niki Lauda voru liðsfélagar um skeið. …
Alain Prost (t.v.) og Niki Lauda voru liðsfélagar um skeið. Myndin er tekin 14. nóvember 1983. Hérna eru þeir við þróunarakstur í Le Castellet í Frakklandi með McLArenbílinn sem brúkaður var 1984. AFP
Niki Lauda og formúlualráðinum Bernie Ecclestone var vel til vina.
Niki Lauda og formúlualráðinum Bernie Ecclestone var vel til vina. AFP
Niki Lauda ræðir við tæknimann í Mónakó.
Niki Lauda ræðir við tæknimann í Mónakó. AFP
Niki Lauda næstur á eftir Svíanum Ronnie Peterson í keppni.
Niki Lauda næstur á eftir Svíanum Ronnie Peterson í keppni. AFP
Niki Lauda á Ferrarifák sínum í belgíska kappakstrinum 16. maí …
Niki Lauda á Ferrarifák sínum í belgíska kappakstrinum 16. maí 1976. AFP
Niki Lauda í mars 2007. Hann átti flugfélög og flaug …
Niki Lauda í mars 2007. Hann átti flugfélög og flaug meðal annars sjálfur. Er hann hér í flugstjórasætinu í Airbus A 319 þotu. AFP
Þrjár goðsagnir formúlu-1 á verðlaunapalli hollenska kappakstursins 25. ágúst 1985. …
Þrjár goðsagnir formúlu-1 á verðlaunapalli hollenska kappakstursins 25. ágúst 1985. Niki Lauda fagnar sigri, McLarenfélagi hans Alain Prost (t.v.) varð annar og þriðji Ayrton Senna (l.t.h.) sem ók fyrir Lotus. AFP
Lauda hefur verið stjórnarformaður félags um formúlu-1 þátttöku Mercedes. Hér …
Lauda hefur verið stjórnarformaður félags um formúlu-1 þátttöku Mercedes. Hér er hann 18. apríl 2015 í Barein með liðsstjóranum Toto Wolff. AFP
Síðustu verðlaun Lauda, svonefnd Lárusarverðlaun fyrir lífstíðar framlag hans til …
Síðustu verðlaun Lauda, svonefnd Lárusarverðlaun fyrir lífstíðar framlag hans til formúlu-1. Við þeim tók hann við athöfn í Berlín 19. apríl 2016. AFP
Niki Lauda.
Niki Lauda. AFP
Liðsfélagarnir Niki Lauda (t.v.) og Alain Prost slaka á eftir …
Liðsfélagarnir Niki Lauda (t.v.) og Alain Prost slaka á eftir æfingu brasilíska kappakstursins í Rio de Janeiro í mars 1984. Þeir ók þá fyrir McLaren. AFP
Tveir stórir. Niki Lauda (t.h.) afhendir Michael Schumacher fjölmiðlaverðlaun þýskra …
Tveir stórir. Niki Lauda (t.h.) afhendir Michael Schumacher fjölmiðlaverðlaun þýskra sjónvarpsstöðva í Köln 29. september 2007. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert