Niki Lauda látinn

Niki Lauda.
Niki Lauda. AFP

Austurríski ökuþórinn og þrefaldur heims­meist­ari í formúlu-1, Niki Lauda, er látinn sjötugur að aldri. 

Lauda, sem fékk nýtt lunga 2. ágúst eftir alvarlega sýkingu en hann hafði áður farið í lungnaskipti, lést í gær að sögn fjölskyldu hans en send var út tilkynning um andlát Lauda í nótt. Lauda varð heimsmeistari árið 1975 en árið 1976 lenti hann í alvarlegu slysi og var vart hugað líf. Þrátt fyrir það endurheimti hann heimsmeistaratitilinn árið 1977 og hlaut hann síðan í þriðja skiptið árið 1984 með McLaren. 

Í Bílablaði Morgunblaðsins árið 2013 segir svo um Lauda: 

Andreas Nikolaus Lauda fæddist þann 22. febrúar árið 1949 í Vín. Um tvítugt fór hann að keppa í kappakstri þrátt fyrir að fjölskylda hans væri því mjög mótfallin. Kvað svo fast að misklíðinni þeirra á milli vegna kappakstursins að Lauda sleit að mestu samskipti við fjölskylduna og komst í kjölfarið í veruleg fjárhagsvandræði því á árunum upp úr 1970 þurftu ökumenn að kaupa sig inn í keppnislið í Formúlu 1 og ynnu menn ekki fljótlega til verðlauna gátu þeir komist peningalega í hann krappan; Lauda gat ekki leitað til föður síns, sem var sterkefnaður kaupsýslumaður í Vín, af augljósum ástæðum, en hagur hans vænkaðist loks þegar hann var ráðinn til keppnisliðs Ferrari árið 1974. Urðu laun hans þá loks með þeim hætti að hann gat greitt upp skuldir sínar.

Nürburgring 1976

Niki Lauda varð fljótt með helstu hetjum Formúlunnar og vann sína fyrstu heimsmeistaratign árið 1975. Hann fór af stað með slíkum yfirburðum árið 1976 að þegar líða tók á tímabilið höfðu menn á orði að formsatriði væri að ljúka keppni það árið; slíkir væru yfirburðir Austurríkismannsins. En örlögin ætluðu honum ekki þrautalausa sigurgöngu það árið. Lauda hafði reynt að fá aðra ökumenn í F1 til að sniðganga kappaksturinn í Nürburgring það árið því honum þótti öryggi brautarinnar ábótavant. Kollegar skelltu við skollaeyrunum og felldu tillögu hans, og kappaksturinn fór fram eins og áætlað var. Varnaðarorð Lauda reyndust hins vegar hafa hörmulegt forspárgildi því strax á öðrum hring missti hann Ferrari-bíl sinn út af brautinni. Bíllinn rakst þar á kant og þeyttist aftur inn á brautina og í veg fyrir Surtees-Ford bíl Bretts Lunger. Ferrari-bíll Lauda varð samstundis alelda og áður en aðvífandi ökumenn náðu að draga hann út úr flakinu hafði hann brunnið illa á höfði og andað að sér brennheitum eiturgufum. Ur hríð var honum vart hugað líf en umheiminum til gapandi undrunar var hann mættur aftur til keppni sex vikum síðar, og missti hann því aðeins af 2 keppnum. Forskot hans var þó fyrir bí og þegar tímabilinu lauk tapaði hann titlinum í hendur James Hunt hjá McLaren.

Aftur á toppinn

Lauda sýndi fádæma harðfylgi árið 1977 og vann þá titilinn aftur fyrir Ferrari-liðið. Hann ók fyrir Brabham árið eftir en ákvað að leggja stýrið á hilluna seinna sama ár. Hann sneri þó aftur í Formúluna árið 1982, í þetta sinn fyrir gönlu fjendurna í MLaren, og sýndi að hann hafði fáu, eða engu gleymt. Árið 1984 vann hann sinn þriðja meistaratitil í Formúlu 1. 1985 var hinsvegar rislágt hjá Lauda og hann settist endanlega í helgan stein að því loknu.“

Eiginkona Lauda er Birgit Wetzinge og eignuðust þau tvíbura saman árið 2009. Lauda átti þrjá syni með fyrri eiginkonu sinni, Marlene Knaus. 

Lauda var einnig í flugrekstri en hann stofnaði Lauda Air árið 1979. Hann seldi félagið til Austrian Airlines árið 2002 en tveimur árum síðar stofnaði hann lággjaldaflugfélagið Niki sem hann seldi síðan til Air Berlin árið 2011. Frá árinu 2012 hefur Lauda verið stjórnarformaður Mercedes-formúluliðsins.

mbl.is