Mercedes með uppfærslur í Montreal

Sebastian Vettel hampar sigurlaunum í Montreal í fyrra.
Sebastian Vettel hampar sigurlaunum í Montreal í fyrra. AFP

Mercedes verður með nýja og uppfærða vél í kappakstrinum í Montreal. Er þetta fyrsta vélaruppfærsla liðsins á keppnistíðinni, en kappaksturinn í Montreal er sá sjöundi á árinu.

Silfurörvarnar hafa unnið sex fyrstu mótin, þar af tvöfalt þau fimm fyrstu. Lewis Hamilton hefur unnið fjögur mótanna og liðsfélaginn Valtteri Bottas tvö. Munar á þeim 17 stigum Hamilton í vil í keppninni um heimsmeistaratitil ökumanna.

Brautin í Montreal kallar á mikið vélarafl og því afréð Mercedes að bíða með uppfærslur fram til mótsins. Hinir þrír framleiðendur keppnisvéla hafa þegar notað tækifæri og uppfært vélar sínar, þ.e. Ferrari, Renault og Honda.

Mercedes hefur unnið sigur í Kanadakappakstrinum 2015, 2016 og 2017 og var Lewis Hamilton að verki í öllum tilfellum. Í fyrra fór Sebastian Vettel á Ferrari með sigur af hólmi í Montreal og næstu menn urðu Bottas og Max Verstappen á Red Bull.

mbl.is