Hamilton ók á vegg

Charles Leclerc í Montreal í dag.
Charles Leclerc í Montreal í dag. AFP

Charles Leclerc á Ferrari ók hraðast á seinni æfingunni í Montreal og var rúmlega hálfri sekúndu fljótari með hringinn en Lewis Hamilton á Mercedes var á fyrri æfingunni. Örlög Hamiltons á seinni æfingunni voru að skella á öryggisvegg snemma á henni.

Leclerc var 74 þúsundustu úr sekúndu fljótari en liðsfélagi hans Sebastian Vettel sem ók næsthraðast á seinni æfingunni.

Hamilton galt fyrir að aka um of inn á beygjubríkur við áttundu beygju. Snerist hann út úr brautinni og skall harkalega á steinvegg og stórskemmdi bíl sinn.  Ók hann ekki frekar það sem eftir var. Valtteri Bottas liðsfélagi hans átti þriðja besta hringinn, var 0,134 úr sekúndu hægari í förum en Leclerc. 

Carlos Sainz á McLaren átti fjórða besta hring æfingarinnar, Kevin Magnussen á Haas þann fimmta og Hamilton þann sjötta og Sergio Perez á Racing Point þann sjöunda. Renault-mennirnir Daniel Ricciardo og Nico Hülkenberg á áttunda og níunda besta hringinn og Lance Stroll, sem er á heimavelli í Montreal, þann tíunda.

Charles Leclerc á seinni æfingunni í Montreal í dag.
Charles Leclerc á seinni æfingunni í Montreal í dag. AFP
Charles Leclerc sinnir skyldustörfum í Montreal í dag.
Charles Leclerc sinnir skyldustörfum í Montreal í dag. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert