Vettel loks á ráspól

Sebastian Vettel fagnar ráspólnum í Montreal.
Sebastian Vettel fagnar ráspólnum í Montreal. AFP

Biðin er loks á enda hjá Sebastian Vettel á Ferrari því hann var rétt í þessu að vinna ráspól kanadíska kappakstursins í Montreal. Þar með lauk 17 móta röð án ráspóls af hans hálfu, eða frá því í þýska kappakstrinum í fyrrasumar.

Vettel rændi pólnum af Lewis Hamilton sem ekið hafði hraðast í annarri tímalotu og einnig í fyrri tímatilrauninni í lokalotunni. Einhvers staðar fann Vettell svæði til að auka ferðina, með þessum árangri. Átti hann vart orð að keppni lokinni, svo mikil var gleði hans með áfangann. Var þetta 55. ráspóllinn sem hann vinnur í formúlu-1.

Charles Leclerc á Ferrari varð þriðji en liðsfélagi Hamiltons, Valtteri Bottas, hefur keppni í sjötta sæti eftir misheppnaðar tvær tímalotur í slagnum um tíu fremstu sætin á  rásmarki.

Daniel Ricciardo náði besta árangri Renault í tímatöku í  ár og var það ekki fyrr en í blálokin sem liðsfélaga hans Nico Hülkenberg var velt úr fimmta sæti niður í það sjöunda.

Pierre Gasly á Red Bull varð fimmti, Lando Norris á McLaren áttundi, Carlos Sainz á McLaren níundi og loks Magnussen á Haas tíundi. Hann gat þó ekki tekið þátt í lokalotunni eftir að hafa skollið harkalega á meistaraveggnum svonefnda út úr lokabeygjunni. Varð stórtjóni á bílnum og nóg vinna framundan hjá tæknimönnum liðsins í kvöld og nótt við að gera hann ökufæran á ný.

Sjálfan sakaði Magnussen ekki en aftur á móti for Max Verstappen á Red Bull með sært stolt af hólmi því hann féll úr leik í annarri lotunni af þremur og keppti því ekki um eitt af tíu sætunum á rásmarki.

Sebastian Vettel og Lewis Hamilton (t.h) takast í hendur eftir …
Sebastian Vettel og Lewis Hamilton (t.h) takast í hendur eftir tímatökuna í Montreal. AFP
Ferrarifélagarnir Sebastian Vettel (t.v.) og Charles Leclerc kátir með tímatökuna …
Ferrarifélagarnir Sebastian Vettel (t.v.) og Charles Leclerc kátir með tímatökuna í Montreal en þeir urðu í fyrsta og þriðja sæti. AFP
Vel fór á með Sebastian Vettel (t.h.) og Lewis Hamilton …
Vel fór á með Sebastian Vettel (t.h.) og Lewis Hamilton (eftir tímatökuna í Montreal. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert