Ótrúlegur kappakstur í Spielberg

Max Verstappen fagnar sigri í Spielberg. Hann vann kappaksturinn þar …
Max Verstappen fagnar sigri í Spielberg. Hann vann kappaksturinn þar einnig í fyrra. AFP

Ár og dagur eru frá jafn spennandi slag um sigur í kappakstri í formúlu-1 og í austurríska kappakstrinum í Spielberg í dag. Eftir misheppnaða ræsingu og fall niður í níunda sæti vann Max Verstappen á Red  Bull sig jafnt og örugglega fram á við og dugði herfræði hans honum til að skjótast upp í fyrsta sæti þegar þrír hringir voru eftir af 71.

Fram að því hafði Charles Leclerc á Ferrari leitt kappaksturinn af ráspól og virtist honum aldrei ógnað fyrr en eftir að Verstappen vann sig fram úr Valtteri Bottas á Mercedes þegar 12 hringir voru eftir. Leclerc virtist vera á léttri siglingu til síns fyrsta mótssigurs en beið kannski of lengi með að knýja fák sinn eftir að Verstappen hafði unnið sig upp í annað sætið. Dró hann ótrúlega hratt á Leclerc og herfræði Ferrari á því augnabliki torskilin. Var Verstappen reyndar á mun minna notuðum dekkjum en Leclerc og gæti skýringin legið í þeim.

Verstappen vann sinn sjötta mótssigur í formúlu-1 og það fyrir framan þúsundir stuðningsmanna sem lagt höfðu undir sig eina stúku brautarinnar og virtist hver einasta áhorfandi í henni klæddur appelsínugulum bol, táknlit Hollands.

Þegar þetta er skrifað var óvissa um hvoru megin sigurinn félli því eftirlitsdómarar kappakstursins sáu ástæðu til að hefja rannsókn á tilburðum Verstappen er hann tók fram úr Leclerc; hvort hann hafi stjakað við honum út úr brautinni, eins og virtist vera á sjónvarpsskjám.

Bottas varð þriðji, varðist á lokahringjunum harðri sókn Sebastians Vettel á Ferrari sem klórar sig örugglega í höfðinu yfir en segja má að hann hafi tapað af verðlaunasæti fyrir misheppnuð dekkjaskipti í fyrra dekkjastoppi hans. Voru aðstoðarmenn hans ekki að fullu viðbúnir er hann kom inn að bílskúr og því tapaði hann þar allt að sjö til átta sekúndum.

Lewis Hamilton á Mercedes vill eflaust gleyma þessum kappakstri sem fyrst en hann lauk keppni í aðeins fimmta sæti, 23 sekúndum á eftir Verstappen.

Hart var tekist á í kappakstrinum um fjölmörg sæti og stöðubarátta í algleymingi lengst af keppni. Í því sambandi má nefna frábæra frammistöðu Land Norris á McLaren í því sambandi og einnig Kimi Räikkönen á Alfa Romeo og Pierre Gasly á Red Bull.

Max Verstappen fagnar á verðlaunapallinnum í Austurríki.
Max Verstappen fagnar á verðlaunapallinnum í Austurríki. AFP
Hollenska stúkan í Spielberg var öll á bandi Verstappen.
Hollenska stúkan í Spielberg var öll á bandi Verstappen. AFP
Charles Leclerc verður að bíða lengur eftir jómfrúrsigri í formúlu-1 …
Charles Leclerc verður að bíða lengur eftir jómfrúrsigri í formúlu-1 eftir að gott tækifæri rann houm úr greipum í dag. AFP
mbl.is