Sigur númer 80 hjá Hamilton

Lewis Hamilton veifar breska fánanum eftir sigurinn í Silverstone.
Lewis Hamilton veifar breska fánanum eftir sigurinn í Silverstone. AFP

Með sigrinum í breska kappakstrinum í Silerstone rétt í þessu hefur Lewis Hamilton landað sigri í 80 formúlu-1 mótum. Nálgast hann jafnt og þétt met Michaels Schumacher sem vann 91 mót á sínum tíma.

Hamilton hóf keppni í öðru sæti og reyndi ákaft en árangurslaust að komast fram úr liðsfélaga sínum Valtteri Bottas. Það var hins vegar heppni Hamiltons að vera í forystu eftir dekkjaskipti Bottas því nokkrum hringjum seinna var öryggisbíllinn kallaður út  í brautina er Antonio Giovinazzi á Alfa romeo festist úti í sandgryfju.

Við það náði Hamilton að skjótast inn fyrir ný dekk og hélt hann eftir það fyrsta sætinu. Lét hann það ekki af hendi og kórónaði þennan sjötta mótssigur sinn í Silverstone með því að setja brautarmet á lokahringnum.

Mercedesliðið réði ferðinni sem svo oft áður en þeir Max Verstappen og Charles Leclerc hjá Ferrari sáu þó áhorfendum fyrir skemmtun dagsins með hörðu en hreinu og nokkuð langvarandi einvígi. Leclerc kom á endanum betur frá mótinu og vann sig á verðlaunapall. Var það þó að miklu leyti að þakka árekstri liðsfélaga hans Sebastian Vettel og Verstappen. Í miklu návígi rakst Vettel aftan á Red Bill bíl Verstappen og flugu báðir út úr brautinni.

Verstappen endaði í fimmta sæti, einu sæti á eftir liðsfélaga sínum Pierre Gasly sem náði sínum besta árangri í ár með fjórða sætinu. Vettel varð að fara inn að bílskúr og fá nýja trjónu og dekk. Við það féll hann niður í neðsta sæti og var svo refsað fyrir samstuðið með því að 10 sekúndum var bætt við aksturstíma hans.

Loks háðu liðin sem næst standa þeim þremur bestu harða rimmur um sæti. Hafði McLaren þar betur en önnur með Carlos Sainz í sjötta sæti. Tugi hringja andaði Daniel Ricciardo niður hálsmál hans en fann aldrei leið fram úr Seinz sem og varðist atlögum hans öllum.

Valtteri Bottas í forystu í byrjun en hann tapaði forystusætinu …
Valtteri Bottas í forystu í byrjun en hann tapaði forystusætinu er öryggisbíllinn var kallaður út í brautina. AFP
Lewis Hamilton að gera sig kláran til keppni á rásmarkinu …
Lewis Hamilton að gera sig kláran til keppni á rásmarkinu í Silverstone í dag. AFP
Charles Leclerc reimar skóþveng sinn fyrir breska kappaksturinn í Silverstone. …
Charles Leclerc reimar skóþveng sinn fyrir breska kappaksturinn í Silverstone. Hann sá áhorfendum fyrir mmikilli skemmtun með frábærri rimmu við Max Verstappen. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert