Mögnuð herfræði skóp sigurinn

Lewis Hamilton ekur yfir endamarkið sem sigurvegari í Hungaroring.
Lewis Hamilton ekur yfir endamarkið sem sigurvegari í Hungaroring. AFP

Með snilldarlegu herfræðibragði þegar 21 hringur var eftir af ungverska kappakstrinum skópu vélfræðingar Mercedes sigur Lewis Hamiltons í Búdapest. Dugði það til að hann hrifsaði fyrsta sætið af Mars Verstappen á Red Bull.

Verstappen hóf keppni af ráspól og naut forystunnar í 67 hringi af 70. Hamilton vann sig fram úr liðsfélaga sínum Valtteri Bottas í ræsingunni og var ætíð einungis steinsnar á eftir Verstappen. Tilraunir Hamiltons til að ná forystunni í miðjum kappakstri dugðu ekki og liðið íhugaði möguleika sína.

Var Bottas brúkaður sem tilraunadýr með aukastoppi til að mæla hvirt geta nýrra dekkja gæti dugað Hamilton til að stoppa og ná Verstappen aftur. Reynsla Bottas varð til þess að sénsinn skyldi tekinn því aðrar leiðir virtust ekki ætla duga. Beðið var þó með skiptin þar til of seint yrði fyrir Verstappen að svara þeim.

Vogun vinnur, vogun tapar. Leyndi sér ekki að Hamilton dró jafnt og þétt á Verstappen sem reyndi að verjast með stífri sókn en barðar hans voru orðnir dauðir þegar tíu hringir voru eftir og feigum var ekki forðað. Brunaði Hamilton áfram og komst í tæri við keppinaut sinn þegar fjórir hringir voru í mark. Hamilton greip gæsina og slapp samstundis burt frá Verstappen.

Sebastian Vettel og Charles Leclerc hjá Ferrari háðu einvígi um þriðja sætið  og hafði sá fyrrnefndi betur. Nú þegarformúlan fer í fjögurra vikna frí situr hann uppi án mótssigurs en langt verður að fara aftur á bak til að finna fordæmi þess, ef þau eru á annað borð til.

Nokkuð var um rimmur um einstök sæti en kappaksturinn þó fremur tíðindalítill. Í sætum fimm til tíu urðu - í þessari röð - Carlos Sainz á McLaren, Pierre Gasly á Red Bull, Kimi Räaikkönen á Alfa Romeo, Valtteri Bottas á Mercedes, Lando Norris á McLaren og Alexander Albon á Toro Rosso.

Þrátt fyrir að missa af sigri sem virtist lengstum í hendi fér Verstappen ekki sneyptur í fríið. Getur hann huggað sig við að hann komst nú í fyrsta sinn á verðlaunapallinn í Hungaroring við Búdapest.

Valtteri Bottas (t.h.) ógnaði Max Verstappen (t.v.) inn að fyrstu …
Valtteri Bottas (t.h.) ógnaði Max Verstappen (t.v.) inn að fyrstu beygju eftir ræsingu. AFP
Lewis Hamilton fagnar sigrinum í Búdapest með aðstoðarmönnum sínum.
Lewis Hamilton fagnar sigrinum í Búdapest með aðstoðarmönnum sínum. AFP
Lewis Hamilton fagnar sigri í Búdapest annað árið í röð.
Lewis Hamilton fagnar sigri í Búdapest annað árið í röð. AFP
mbl.is