Fjórði ráspóll Leclerc í röð

Charles Leclerc fagnar ráspólnum í Sotsjí, þeim fjórða í röð.
Charles Leclerc fagnar ráspólnum í Sotsjí, þeim fjórða í röð. AFP

Charles Leclerc á Ferrari var í þessu að vinna ráspól rússneska kappakstursins í Sotsjí og er það fjórði póll hans í röð. Lewis Hamilton á Mercedes tókst í síðustu atlögu að komast upp á milli ökumanna Ferrari.

Vettel mistókst í seinni tímatilrauninni í lokalotu tímatökunnar og bætti því ekki tíma sinn. Það gerði hins vegar Hamilton sem ruddi með því Vettel úr öðru sætinu sem Ferrariþórinn sat í eftir fyrri tímatiraunina.

Leclerc var í sérflokki eða 0,4 sekúndum á undan Hamilton en milli hans og Vettel munaði aðeins 23 þúsundustu úr sekúndu. 

Max Verstappen á Red Bull varð fjórði, rúmlega 0,3 sekúndum á undan Valtteri Bottas á Mercedes. Lengdist svo bilið því í sjötta sæti varð Caros Sainz á McLaren en 0,6 sekundum á eftir Bottas og 1,6 sekúndu á eftir Leclerc. 

Í sætum sjö til tíu urðu - í þessari röð - Nico Hülkenberg á Renault, Lando Norris á McLaren, Romain Grosjean á Haas og Daniel Ricciardo á Renault.

Vegna akstursvítis hefur Verstappen keppni á morgun af níunda rásstað. Fyrir bragðið færist Bottas upp á aðra rásröð, á fjórða rásstað og Carlos Sainz og Nico Hülkenberg færast upp á þriðju rásröð, á fimmta og sjötta rásstað.

Charles Leclerc (t.v.) og Lewis Hamilton gantast eftir keppnina um …
Charles Leclerc (t.v.) og Lewis Hamilton gantast eftir keppnina um ráspólinn í Sotsjí. AFP
Ferrarifélagarnir takast í hendur eftir tímatökuna í Sotsjí.
Ferrarifélagarnir takast í hendur eftir tímatökuna í Sotsjí. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert