Lánið lék við Lewis

Lewis Hamilton hrósar sigri í Sotsjí.
Lewis Hamilton hrósar sigri í Sotsjí. AFP

Óhætt er að segja að lánið hafi leikið við Lewis Hamilton í Sotsjí í Rússlandi er hann vann rússneska kappaksturinn óvænt í þessu. Í stað þess að þurfa hanga í kjölfari Ferraribílanna snerist taflið við í miðjum kappakstri og  Mercedesliðið hrósaði tvöföldum sigri.

 Sebastian Vettel náði forystu í ræsingunni af liðsfélaga sínum Charles Leclerc og Hamilton var þriðji. Þannig hélst röðin hriung eftir hring og Vettel seig frá næstu mönnum með hverjum hraðasta hringnum af öðrum.

Leclerc komst í forystu eftir 27 hringi af 53, kom út fyrir framan trjónu félaga síns er Vettel  lauk sínu dekkjastoppi. Ekkert benti til annars en öruggs Ferrarisigurs en áður en varði fuðraði herfræði Ferrari upp því vélin í bíl Vettels gaf sig rétt eftir dekkjastoppið.

Öryggisbíll var kallaður út og er hann yfirgaf brautina var Hamilton fremstur, Valtteri Bottas liðsfélagi hans annar og Leclerc þriðji. Þrátt fyrir tilraunir Ferrari gáfu ökumenn Mercedes ekkert eftir á seinni helmingi kappakstursins og unnu örugglega tvöfalt.

Sigurinn var sá fjórði sem Hamilton vinnur í Sotsjí og sá 82. á keppnisferli hans. Í leiðinni setti hann hraðasta hring kappakstursins.

mbl.is