Verstappen vann ráspólinn

Max Verstappen skrýðist fyrir akstur í Interlagosbrautinni í Sao Paulo.
Max Verstappen skrýðist fyrir akstur í Interlagosbrautinni í Sao Paulo. AFP

Max Verstappen á Red Bull var í þessu að vinna ráspól brasilíska kappakstursins í Sao Paulo. Annar varð Sebastian Vettel á Ferrari og þriðji Lewis Hamilton á Mercedes.

Eftir fyrri tímatilraun í lokalotunni var Verstappen á toppnum en aðeins 13 þúsundustu úr sekúndu á undan Vettel og Charles Leclerc á Ferrari. Jók Verstappen svo muninn í seinni tímatilrauninni og sá eini til viðbótar sem bætti tíma sinn þá var Hamilton. Skaust hann með því upp fyrir Leclerc sem færist aftur í 14. sæti vegnavélaskipta.

Í sætum fimm til tíu urðu - í þessari röð - Valtteri Bottas á Mercedes, Alexander Albon á Red Bull, Pierre Gasly á Toro Rosso, Romain Grosejan á Haas, Kimi Räikkönen á Alfa Romeo og Kevin Magnussen á Haas.

mbl.is