Martröð Ferrari í Sao Paulo

Sebastian Vettel gengur af vettvangi eftir árekstur við liðsfélaga sinn, …
Sebastian Vettel gengur af vettvangi eftir árekstur við liðsfélaga sinn, Charles Leclerc. AFP

Ferrariliðið hugsaði sér gott til glóðarinnar á síðustu hringjum brasilíska kappakstursins í Sao Paulo en kastaði frá sér einu eða tveimur pallsætum með klaufalegri rimmu ökumannanna Sebastian Vettel og Charles Leclerc um þriðja sæti. Rákust þeir saman og féllu báðir úr leik.

Max Verstappen hjá Red Bull fór með sigur af hólmi og  missti forystuna í aðeins einn hring er Lewis Hamilton tókst að smeygja sér fram úr er Verstappen kom út í brautina úr sínum fyrri dekkjaskiptum.

Endurheimti Max forystuna aðeins einum hring seinna og þurfti engar áhyggjur hafa af keppinautunum, ekki heldur við endurræsingu eftir að öryggisbíll hafði verið sendur úti brautina, en þangað fór hann tvisvar.

Hamilton var einkar önugur í hvert sinn sem hann kallaði stjórnborð sitt í talstöðinni. Skammaðist yfir herfræðinni og röngu dekkjavali. Hefur allt þetta slegið hann út af laginu því á riðja síðasta hring reyndi hann að smeygja sér fram úr Alexander Albon á Red Bull og ná öðru sætinu en átti enga möguleika og renndi sér utan í Albon sem snarsnerist á punktinum og féll niður í 15. sæti. 

Við skell þeirra Ferrarimanna og svo  samstuðs Hamiltons og Albon og dekkjaskipta meðan seinni öryggisbíllinn var úti stokkaðist röðin all verulega.  Í sætum fjögur til tíu - í þessari röð - urðu: Carlos Sainz á McLaren fjórði, Kimi Räikkönen og Antonio Giovinazzy á Alfa Romeo í fimmta og sjötta sæti, Daniel Ricciardo á Renault í sjöunda, Lando Norris á McLaren í áttunda, Sergio Perez á Racing Point í níunda og Daniil Kvyat á Toro Rosso í því tíunda.

Nú er aðeins eftir eitt mót á keppnistíðinni. Fer það fram í Abu Dhabi eftir hálfan mánuð.

Max Verstappen fagnar flottum sigri í Sao Paulo, hans áttunda …
Max Verstappen fagnar flottum sigri í Sao Paulo, hans áttunda á ferlinum. AFP
Klaufaleg tilraun Lewis Hamilton á Mercedes til að komast fram …
Klaufaleg tilraun Lewis Hamilton á Mercedes til að komast fram úr Alexander Albon gerði út um tvöfaldan sigur Red Bull. AFP
mbl.is