Hamilton óviðráðanlegur

Lewis Hamilton fagnar ráspólnum í Abu Dhabi.
Lewis Hamilton fagnar ráspólnum í Abu Dhabi. AFP

Lewis Hamilton á Mercedes var í þessu að vinna síðasta ráspól ársins, í Yas Marinabrautinni í Abu Dhabi. Þar fer lokamót ársins fram á morgun. Mercedes fagnaði tvöfalt með öðru sæti Valtteri Bottas en hann færist niður á 20. og aftasta rásstað vegna tveggja vélarskipta í dag og í gær.

Max Verstappen vann sig upp fyrir ökumenn Ferrari og varð þriðji. Hann ók hraðast í fyrstu lotu tímatökunnar en Ferrari átti öfluga millilotuna og Charles Leclerc settist þá í efsta sæti. Hrapalleg  herfræðimistök Ferrari leiddu til þess að hann varð að gera sér fjórða sætið að góðu. Var hann sendur tveimur til þremur sekúndum of seint út í lokatilraunina því köflótta flagginu til marks um lok tímatökunnar var veifað er hann var handarbaksbreidd frá því að ná yfir marklínuna. Vegna þess munar fauk lokaatlaga hans að tíma út í veður og vind.

Leclerc kvartaði undan því í talstöðinni að hann hafi tafist í brautinni á upphitunarhringnum og sagði blákalt að þar hafi liðsfélagi hans Sebastian Vettel verið að verki en hann var næstur á undan Leclerc í brautinni.

Vettel slapp yfir línuna en tókst ekki að bæta sig og varð fimmti.

Alexander Albon á Red Bull varð sjötti, Lando Norris á McLaren sjöundi, Daniel Ricciardo á Renault áttundi, Carlos Sainz á McLaren níundi og Nico Hülkenberg á Renault tíundi, en hann var 1,9 sekúndum á eftir Hamilton.

Lewis Hamilton á ferð í tímatökunni í Abu Dhabi.
Lewis Hamilton á ferð í tímatökunni í Abu Dhabi. AFP
Lewis Hamilton á leið til ráspóls í Abu Dhabi.
Lewis Hamilton á leið til ráspóls í Abu Dhabi. AFP
Lewis Hamilton innan um snekkjur í tímatökunnni í Abu Dhabi …
Lewis Hamilton innan um snekkjur í tímatökunnni í Abu Dhabi í dag. AFP
mbl.is