Hinn aldni ekki af baki dottinn

Bernie Ecclestone.
Bernie Ecclestone. AFP

Bernie Ecclestone, fyrrum alráður í formúlu-1, á von á sínum fjórða erfingja, sem vart væri í frásögur færandi nema sakir þess að hann er 89 ára gamall; verður níræður í október nk.

Ecclestone segir að á leiðinni sé drengur og hermt er að hann komi í heiminn í júlí nk.

Þetta verður fyrsta barn Ecclestone með hinni brasilísku konu sinni Fabiana Flosi, sem er 44 ára. Fyrir á hann þrjár stúlkur og hafa þær fært honum fimm barnabörn.

Ecclestone býr að jafna í London en dvelst sem stendur á búgarði þeirra hjóna við Sao Paulo í Brasilíu. Þangað leituðu þau skjóls undan kórónaveirunni. Þar rækta þau kaffibaunir.

Elsta dóttir Ecclestone er hin 65 ára gamla Deborah, af fyrsta hjónabandi hans með Ivy Bamford. Með annarri konu sinni, Slavica Radic, eignaðist hann svo Tamara, sem er 35 ára, og hina 31 árs Petru. Þau Ecclestone skildu 2009. Þremur árum seinna gekk hann svo að eiga Flosi, eða 2012.

Auður Ecclestone er metinn á þrjá milljarða dollara að lágmarki.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert