Stefna á að byrja án áhorfenda í júlí

Lewis Hamilton er ríkjandi heimsmeistari í formúlu-1.
Lewis Hamilton er ríkjandi heimsmeistari í formúlu-1. AFP

Alþjóða akst­ursíþrótta­sam­bandið (FIA) skoðar nú að hefja tímabilið í formúlu-1 í júlí en þá verður keppt án áhorfenda vegna kórónuveirufaraldursins sem nú herjar á heimsbyggðina.

Keppnin átti að hefjast í Ástralíu í síðasta mánuði en var blásin af eftir að m.a. einn liðsmaður McLaren smitaðist af veirunni. Í kjölfarið var fleiri mótum frestað en Ross Brawn, aðalstjórnandi formúlu-1, segir að keppni gæti hafist á ný í sumar.

„Við stefnum á að halda keppni án áhorfenda í lokuðu og öruggu umhverfi. Keppni án áhorfenda er ekki frábær kostur en það er betra en að keppa ekki,“ sagði Brawn í viðtali við Sky Sports.

Til stendur að stytta tímabilið og jafnframt keppa fram á næsta ár til að klára mótið en Brawn gaf í skyn að hægt væri að halda allt að 19 keppnir, upprunalega áttu þær að vera 22.

„Átta keppnir eru lágmarkið til að halda heimsmeistarakeppnina samkvæmt reglum FIA. Við getum náð átta keppnum ef við byrjum í október, þannig að það er síðasti séns, annars verður engin formúla-1 í ár.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert