Vettel á förum

Sebastian Vettel kveður Ferrari við vertíðarlok 2020.
Sebastian Vettel kveður Ferrari við vertíðarlok 2020. AFP

Sebastian Vettel mun yfirgefa Ferrariliðið við lok komandi keppnistímabils, en ekki tókust samningar um framlengingu dvalar hans þar.

„Það er gagnkvæmur skilningur á því að liðið og ég eigum ekki lengur samleið frá vertíðarlokum. Þar eiga fjármál stóran þátt í,“ segir Vettel og bætir við að hann láti peningamálin ekki ráða ferð sinni.

„Ferrari á sérstakan sess í formúlu-1 og ég vona að það eigi eftir að njóta þess árangurs sem það verðskuldar. Vil ég þakka allri liðsfjölskyldunni og sér í lagi öllum eldheitu stuðningsmönnum þess stuðninginn sem þeir hafa sýnt mér.“

Vettel gekk til liðs við Ferrari fyrir keppnistíðina 2015 eftir fimm ár í keppni með Red Bull, en með því vann hann heimsmeistaratitil ökumanna fjórum sinnum í röð, 2010 til 2013.

Á fyrsta árinu með Ferrari vann Vettel þrjú kappakstursmót en árið eftir, 2016, ekki neitt. Næstu tvö árin var hann í keppni um titil ökumanna vertíðina út í gegn en varð annar bæði árin.

Árið í fyrra, 2019, var sérlega erfitt fyrir Vettel þar sem Ferraribíllinn stóðs ekki jöfnuð við bíla Mercedes. Aukinheldur var hann kominn með nýjan liðsfélaga, Charles Leclerc, sem veitti honum mikla keppni og stóð framar í vertíðarlok, ólíkt því sem Vettel var vanur árin fjögur sem Kimi Räikkönen var liðsfélagi hans, 2015 til 2018.

Vettel hafnaði að lokum í fimmta sæti í  keppninni um titil ökumanna, sæti á eftir Leclerc og með aðeins einn mótssigur undir belti.

Sebastian Vettel í þungum þönkum í bílskúr Ferrari í Sao …
Sebastian Vettel í þungum þönkum í bílskúr Ferrari í Sao Paulo í fyrra. AFP
Sebastian Vettel fékk ekki mörg tækifæri til að brosa á …
Sebastian Vettel fékk ekki mörg tækifæri til að brosa á keppnistíðinnii 2019. Hér horfir hann bjartsýnn mót keppni á blaðamannafundi í Melbourne, en rétt þar á eftir var mótið fellt niður vegna kórónusmits. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert