Þráttað um peninga í Silverstone

Keppt hefur verið í Silverstone í yfir 70 ár. Myndin …
Keppt hefur verið í Silverstone í yfir 70 ár. Myndin er frá 1954 og eru ökumennirnir Juan Manuel Fangio á Mercedes (t.h.) og Stirling Moss. AFP

Breski kappaksturinn í formúlu-1 í Silverstone er í óvissu vegna þrætu um peninga, en um þá takast eigendafélag brautarinnar og félagið um formúlu-1.

Félagið hefur farið fram á að tvö mót verði haldin í Silverstone í sumar, 19. og 26. júlí. Tilgangurinn er að koma sem flestum mótum í kring í ár og draga þannig úr áhrifum kórónuveirufaraldursins.

Hermt er að eigendafélag brautarinnar hafi farið fram á 15 milljóna punda fjárstyrk til að framkvæma mótin tvö. Er það í raun sama upphæð og félagið greiðir til formúlufélagsins fyrir að fá að halda breska kappaksturinn. 

Formúlufélagið hefur boðist til að tryggja að tap verði ekki á keppni í Silverstone í ár og segir 15 milljónir punda miklu hærri upphæð en kosti að halda mótið á bak við luktar dyr; án áhorfenda.

Í tilkynningu sem gefin var út í gær segir að viðræður Silverstone og F1 séu í gang um að reyna koma breska kappakstrinum í kring. Takist ekki samningar er hermt að Hockenheim verði fengið til að sjá um keppnina í staðinn. Einnig er orðrómur á kreiki um að ítalska kappakstursbrautin Imola hafi áhuga á að lina þrautir formúlufélagsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert