Arftaki Binotto sagður fundinn

Hitnað hefur verulega undir Mattia Binotto liðsstjóra Ferrari.
Hitnað hefur verulega undir Mattia Binotto liðsstjóra Ferrari. AFP

Dagar Mattia Binotto sem liðsstjóra Ferrari virðast svo gott sem taldir og gefa ítalskir fjölmiðlar í skyn að eftirmaður hans sé fundinn. Rifu blöðin og tættu Ferrariliðið í sig eftr ófarirnar í Spielberg fyrir viku en þar féll báðir skarlatsrauðu fákarnir úr leik eftir samstuð snemma á fyrsta hring.

Ferrari á við alvarlega kreppu að stríð eftir aðeins tvö mót. „Fundur stóð lengi yfir í Maranello í vikunni til að finna út hvað gera þyrfti við bílana fyrir ungverska kappaksturinn,“ sagði íþróttadagblaðið Corriere della Sera.

Hermt er að fleiri nýir fletir er áhrif hafa á loftafl og straumlínur Ferraribílsins verði settir á bílinn fyrir keppnina í Búdapest. Fylgir það sögu að yfirmenn Binotto, John Elkann og Louis Camilleri, séu reiðubúnir að grípa til „vægðarlausra ráðstafana“ taki bílinn ekki skjótum framförum.

„Þeir eru meir að  segja með áætlun um eftirmann [Binotto]: Antonello Coletta,“ bætir blaðið við. Coletta er yfirmaður íþróttadeildar Ferrari og stýrir m.a. þátttöku Ferrari í götubílakeppni, GT.

Við svo róttækar aðgerðir njóta stjórnendur Ferrari stuðnings margra ítölsku fjölmiðlanna.´Í því sambandi sagði La Gazzetta dello Sport: „Þegar það sem fer í kökuna er gott þá hlýtur það að vera bakarinn sem kann ekki að baka.“

Ekki er víst að Binotto verði afmunstraður ef marka má þýsku sjónvarpsstöðina RTL. Hún segir að Binotto gæti haldið vinnunni út vertíðina að minsta kosti.

Fyrrverandi Renaultstjórinn Flavio Briatore segir vandræði Ferrari það mikil að meir að segja myndi það lítið laga þótt liðið fengi Lewis Hamilton til liðs við sig. „Ferrari hefur ekkert unnið um árabil. Vandinn liggur í straumfræði bílsins, og nú virðist vélin líka vandamál,“ segir Briatore við blaðið Tuttosport.

„Væri ég Binotto myndi ég afskrifa þetta ár og líka það næsta og undirbúa heldur 2022-bílinn vegna nýrra regla sem þá koma til framkvæmda. Ég myndi ekki hika við það,“ segir Briatore.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert