Setti met í 16. sæti

Kimi Räikkönen hefur klárað fleiri mót í formúlu-1 en nokkur …
Kimi Räikkönen hefur klárað fleiri mót í formúlu-1 en nokkur annar. AFP

Kimi Räikkönen hefur farið heldur rólega af stað á formúlutíðinni. Og þótt hann gefi lítið fyrir tölfræði og statistikk þá náði hann markverðum árangri þótt honum væri náð með 16. sæti í kappakstrinum í Búdapest.

Með því hefur hann klárað fleiri mót í formúlu-1 en nokkur annar ökumaður, eða 246. Fyrra metið átti Fernando nokkur Alonso sem snýr aftur til keppni á næsta ári og gæti hugsanlega endurheimt „kláruð mót“ metið þá, ekki síst ef Räikkönen hættir keppni í vertíðarlok. Alonso hefur fjórum mótum færra undir belti en finnski ökumaðurinn hjá Alfa Romeo.

Næsta met sem Kimi gæti slegið er fjöldi ræsinga í formúlunni, þ.e. heildarfjöldi kappakstra. Það á Rubens Barrichelo sem stendur en mótin hans urðu 322. Kimi er með 315 stört og vantar því aðeins sjö til að jafna það. Sem stendur eru sjö mót eftir sem dugar aðeins til að jafna met Barrichello. Líkur þykja á að fleiri mót eigi eftir að bætast á mótaskrá ársins og því gæti Räikkönen slegið metið.

mbl.is