Hamilton á heimavelli

Lewis Hamilton í s-beygjuhlykknum í Silverstone í tímatökunni í dag.
Lewis Hamilton í s-beygjuhlykknum í Silverstone í tímatökunni í dag. AFP

Silverstone er að sönnu heimavöllur Lewis Hamiltons í formúlu-1. Þar vann hann rétt í þessu ráspól enska kappakstursins, setti brautarmet og ráspólamet.

Liðsfélaginn Valtteri Bottas ógnaði veldi Hamiltons verulega en gerði agnarsmá akstursmistök í báðum lokatilraununum að tíma. Slíkt lætur Hamilton sér ekki úr greipum renna og stormaði í mark.

Rásapóllinn var sá sjöundi  sem hann vinnur í Silverstone sem er met. Þá tvíbætti hann brautarmetið í lokalotunni. Loks var ráspóllinn sá 91. á ferlinum sem þýðir að hann færist nær heildar ráspólameti Michaels Schumacher. 

Max Verstappen á Red Bull hreppti þriðja rásstaðinn en var rúmri sekúndu lengur með hringinn en Mercedesmennirnir. Er því vandséð hvernig þær ætla að velgja Hamilton og Bottas undir uggum, eins og stjórnendur Red Bull segja þá ætla að gera.

Í sætum fjögur til tíu urðu - í þessari röð - Charles Leclerc á Ferrari, Lando Norris á McLaren, Lance Stroll á Racing Point,  Carlos Sainz á McLaren, Daniel Ricciardo og Esteban Ocon á Renault og Sebastian Vettel á Ferrari. 

Lewis Hamilton ánægður með ráspólinn í Silverstone.
Lewis Hamilton ánægður með ráspólinn í Silverstone. AFP
mbl.is