Bottas fljótastur á báðum æfingum

Valtteri Bottas á Mercedes á seinni föstudagsæfingunni í Mugello.
Valtteri Bottas á Mercedes á seinni föstudagsæfingunni í Mugello. AFP

Valtteri Bottas ók hraðast á báðum föstudagsæfingum  Toskanakappakstursins í Mugello á Ítalíu en árekstur takmarkaði akstur liðsfélaga hans Lewis Hamilton á þeirri seinni.

Brautin er fyrst og fremst þróunarbraut fyrir sport- og keppnisbíla Ferrari en ökumennn lýstu ánægju sinni með hana eftir æfingarnar. Hringurinn er 5,2 kílómetrar.

Bottas var tveimur tíundu úr sekúndu fljótari en Hamilton og þriðja sætið var skipað kunnuglega þar sem Max Verstappen á Red Bull sat.

Þetta var fimmti föstudagurinn í röð þar sem Bottas er hraðskreiðastur á að minnsta kosti annarri æfinga þess dags. Takmark hans er að reyna saxa á 47 stiga forskot Hamiltons í stigakeppninni um heimsmeistaratitil ökumanna í formúlu-1.

Tvisvar varð að stöðva æfinguna vegna óhappa. Fyrst er Lando Norris snarsneri McLaren bílnum og hafnaði á öryggisveg. Svo vegna áreksturs Sergio Perez á Racing Point og Kimi Räikkönen á Alfa Romeo. Fyrir að vera valdur að því færist Perez aftur um eitt sæti á rásmarki kappakstursins á sunnudag.

Fjórða besta tímann átti Alex Albon á Red Bull, fimmti Daniel Ricciardo og sjötti Esteban Ocon, báðir á Renault, og sjöundi varð sigurvegarinn í Monza, Pierre Gasly, á Alpha Tauri.

Räikkönen átti níunda besta tímann og Charles Leclerc á Ferrari þann tíunda besta. Kappaksturinn í Mugello á morgun verður þúsundasta mót í formúlu-1 sem ítalska liðið tekur þátt í.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert