Mercedessigur í afmælismóti Ferrari

Lewis Hamilton fagnar sigrinum í Mugello í dag.
Lewis Hamilton fagnar sigrinum í Mugello í dag. AFP

Með ólíkindum var hvernig Toscanakappaksturinn í Mugello þróaðist en öryggisbíll var kallaður tvisvar í brautina í byrjun vegna hópárekstra og aftur seinna vegna óhappa. Lewis Hamilton á Mercedes sigraði eftir að hafa komist fram úr og náð forystunni af liðsfélaga sínum Valtteri Bottast í fyrstu endurræsingu af þremur.

Það var Mercedes sem sigraði og lítið fór fyrir ökumönnum Ferrari en þetta var eittþúsundasti formúlu-1 kappakstur ítalska liðsins. Voru þeir í algjörum sérflokki. Ferrarimennirnir Charles Leclerc og Sebastian Vettel luku báðir keppni á skarlatsrauðu fákunum og það í stigasætum.

 Tvisvar var keppnin stöðvuð með rauðu flaggi og alls féllu átta ökumenn úr leik vegna hópárekstra.

Keppnin um þriðja sætið á verðlaunapallinum stóð lengi og helstu leikendur voru Daniel Ricciardo á Renault, Alex Albon á Red Bull og ökumenn Racing Point, Lance Stroll og Sergio Perez. Var Ricciardo valinn ökumaður mótsins fyrir frammistöðu sína. Tók hann fram úr keppinautunum einum af öðrum og varðist lengi í þriðja sæti. Staða hans versnaði við síðustu útkomu öryggisbílsins og fékk ekki varist atlögum Albons, sem komst fram  úr og vann sitt fyrsta sæti á verðlaunapalli í keppni í formúlu-1. 

Í sætum fimm til tíu - í þessari röð - urðu Sergio Perez á Racing Point, Lando Norris á McLaren, Daniil Kvyat á Alpha Tauri, Charles Leclerc á Ferrari, Kimi Räikkönen á Alfa Romeo og Sebastian Vettel á Ferrari. Auk þessara kláruðu keppni George Russell á Williams og Romain Grosjean á Haas.

Þessir kláruðu ekki, Lance Stroll Racing Point vegna áreksturs, Esteban Ocon á Renault vegna bremsubilunar, Kevin Magnussen á Haas vegna áreksturs, Antonio Giovinazzi á Alfa Romeo vegna áreksturs, Carlos Sainz á McLaren vegna áreksturs, Nicholas Latifi á Williams vegna áreksturs, Pierre Gasly á Alpha Tauri vegna áreksturs og Max Verstappen á Red Bull vegna áreksturs.

mbl.is